Læknir, sem annaðist ökuþórinn Michael Schumacher í tæplega hálft ár eftir að hann lenti í alvarlegu skíðaslysi í fyrra, segir að Schumacher sýni ákveðnar framfarir.
En læknirinn, Jean-Francois Payen, varar við því að batinn sé hægur og langt ferli sé framundan. Payen starfar á sjúkrahúsinu í Grenoble þar sem Schumacher dvaldi í langan tíma eftir að hafa dottið á skíðum í frönsku Ölpunum í desember. Hann fékk alvarlega höfuðáverka í slysinu og var haldið sofandi í 165 daga.
Samkvæmt BBC heimsækir Payen Schumacher reglulega á heimili hans í Gland í Sviss. Í dag veitti læknirinn frönsku útvarpsstöðinni RTL og dagblaðinu Le Parisien viðtal um líðan ökuþórsins. „Ég hef orðið var við framfarir en við eigum að gefa honum tíma,“ segir Payen.
Hann segir líkurnar ekkert aðrar hjá Schumacher en öðrum sjúklingum sem fá sambærilega höfuðáverka. Bataferlið sé tímafrekt, allt frá einu ári upp í þrjú ár. Þetta er í takt við það sem aðrir læknar hafa sagt.