Sænski herinn hefur hætt leit að útlendum kafbát sem talið var að væri í skerjagarðinum fyrir utan Stokkhólm. Að sögn Anders Grentstad yfirmanns í hernum var einhvers konar sjófar á ferðinni neðansjávar í skerjagarðinum en það sé farið úr sænskri landhelgi.
Grentstad ræðir nú við fjölmiðla í Stokkhólmi. Hann segir að sjófarið hafi örugglega ekki verið hefðbundinn kafbátur en um einhvers konar sjófar hafi verið að ræða, sennilega lítið skip. Hann er stoltur af því hversu fljótt herinn brást við en leit hófst í skerjagarðinum fyrir viku.
Minni á leitina að Kalla á þakinu
Rússneska varnarmálaráðuneytið segir að kafbátaleit sænska hersins hafi verið tilefnislaus og gengur rússneskur majór svo langt að líkja málinu við söguna um Kalla á þakinu eftir Astrid Lindgren en aðalsögupersónan þar er ímyndun einmana stráks.
Mjög var rætt um það í sænskum fjölmiðlum að um rússneskan kafbát væri að ræða en rússnesk yfirvöld hafa neitað því allan tímann. Spurður um afstöðu Rússa til leitarinnar sagðist Grenstad aldrei hafa bent á neinn ákveðinn sökudólg.
Grenstad segir að það sé hins vegar öruggt að útlenskt sjófar, að minnsta kosti eitt, hafi verið í skerjafirðinum án heimildar og slíkt sé algjörlega óþolandi.
Yfir 200 hermenn tóku þátt í leitinni og var bæði leitað á sjó og úr lofti en aðgerðin er sú viðamesta hjá sænska hernum frá lokum kalda stríðsins.
Hann segir að þrátt fyrir að sænski herinn hafi fengið upplýsingar víða að frá samherjum þá hafi einvörðungu Svíþjóð staðið að leitinni.