Sænsk stjórnvöld hafa ákveðið að hætta leit að kafbátnum sem talið var að væri í skerjagarðinum fyrir utan Stokkhólm. Er þar með lokið mestu hernaðaraðgerðum Svía frá lokum kalda stríðsins en ekki er vitað til þess að fundist hafi tangur né tetur af útlendum kafbát í skerjagarðinum þrátt fyrir víðtæka leit.
Yfirmenn í sænska hernum tilkynntu þetta snemma í morgun en leitin hefur staðið yfir óslitið síðan á föstudag í síðustu viku. Að sögn Jespers Tengroths, upplýsingafulltrúa hersins, hefur herinn leitað af sér nánast allan grun en búið er að fínkemba leitarsvæðið.
Boðað hefur verið til blaðamannafundar nú klukkan 8 að íslenskum tíma, 10 að sænskum tíma, þar sem Anders Grenstad aðmíráll fer yfir stöðu mála og hverju leitin hefur skilað.
Þar sem leitin hefur verið afturkölluð hefur herinn farið aftur til fyrri starfa en einhver viðbúnaður verður áfram á svæðinu. Allt frá því leitin hófst fyrir viku hefur því verið haldið fram að það sé verið að leita að rússneskum kafbát þrátt fyrir að rússnesk yfirvöld neiti því að kafbátur á þeirra vegum hafi verið á þessum slóðum. Rússar beindu sökinni að Hollendingum sem svöruðu að bragði að þeir ættu engan kafbát á þessum slóðum.
Sænskir hernaðarsérfræðingar álíta að Rússar hafi komið fyrir hlerunarbúnaði í skerjagarðinum eða einfaldlega viljað kanna hvort þeir gætu laumast upp að ströndinni án þess að Svíar uppgötvuðu bátinn.
Málið hefur valdið miklum umræðum um varnir Svía og hvort þær séu viðunandi. Ljóst er að Eystrasaltið skiptir miklu fyrir varnir Rússa, sem hafa þar kafbátaflota. Aukin spenna í samskiptum Rússa við vestræn ríki hefur ýtt undir gagnkvæma tortryggni. Er því velt upp að Rússar séu að ögra Svíum vegna náins samstarfs Svía við Atlantshafsbandalagið.