Geimflaug sem flytja átti ýmsar birgðir til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar sprakk í flugtaki í Virginíuríki í Bandaríkjunum í kvöld.
Geimflaugin var ómönnuð og virðist engan starfsmann bandarísku geimferðastofnunarinnar, NASA, á jörðu niðri við Wallops-flugmiðstöðina hafa sakað. Aðstæður til skotsins voru góðar. Orsakir sprengingarinnar eru ókunnar en skotið var sýnt í beinni útsendingu á vef NASA.
Rúm tvö tonn af matvælum, verkfærum, íhlutum og tilraunum voru um borð í Antares-eldflauginni sem áttu að fara til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar. Einkafyrirtækið Orbital Science smíðaði flaugina en það er með samning við NASA um að sjá um átta ferðir með birgðir til geimstöðvarinnar. Ferðin nú hefði verið sú þriðja sem fyrirtækið annast.
Flaugin átti upprunalega að fara í loftið í gær en þá var ferð hennar frestað á síðustu stundu eftir að bátur sigldi inn á öryggissvæði. Í öryggisskyni afmarkar NASA rúmlega 3.600 ferkílómetra svæði í kringum skotstaðinn þegar eldflaugum er skotið á loft.