Hálfgert neyðarástand í bænum

Vetrarmynd frá Odda í Hordalaland
Vetrarmynd frá Odda í Hordalaland Wikipedia

Ein af þremur brúm yfir ána Opa í  norska bænum Odda fór í sundur í morgun en mikil flóð eru í ánni og hafa fimm íbúðarhús sópast á brott. Ásta Steinunn Ástþórsdóttir, íbúi í Odda, segir að allt sé á floti næst ánni en hús hennar og fjölskyldu er annars staðar í bænum. Á annan tug Íslendinga býr í Odda. „Það hefur í raun myndast hálfgert neyðarástand í bænum,“ segir Ásta.

Ásta Steinunn hefur búið í Odda í tvö ár en alls búa um fimm þúsund manns í bænum sjálfum og um 7.500 manns í sveitarfélaginu. 

Hún segir að áin Opa gangi í gegnum bæinn og hún hafi stækkað og stækkað að undanförnu enda miklar haustrigningar á þessum slóðum. Í gær hafi áin byrjað að fara yfir bakka sína og í nótt sópuðust nokkur hús út í ána.

Það var síðan í morgun sem miðbrúin gaf sig undan vatnselginum og eru nú 15 hús í Hjøllo sambandslaus. Ásta segir að auk þess séu fyrirtæki og matvöruverslun í Hjøllo hverfinu og komast því starfsmenn þar ekki til vinnu. Neðstu brúnni var síðan lokað í nótt en hún er í raun tenging við þjóðveginn. Búið er að opna fyrir umferð um brúna á ný en um tíma var óttast að Shell bensínsstöð við brúna myndi fara. 

Ekkert manntjón hefur orðið í flóðunum og segir Ásta að almannavarnir hafi brugðist mjög fljótt við þegar ljóst var í hvað stefndi. Hún segir þetta einkennandi fyrir Norðmenn, þeir eru skynsamir og fljótir að meta hættuna og bregðast við. 

Byrjað var að rýma sjúkrahús bæjarins, sem stendur skammt frá ánni, í gærkvöldi þar sem gastankur við spítalinn var kominn á flot. Það var síðan mat slökkviliðs og lögreglu að ekki væri hætta á ferðum og sjúklingar því fluttir inn á sjúkrahúsið á ný.

„Við fórum í göngutúr í gærkvöldi innst inn í Sørfirði og þar er allt á floti. Til að mynda tjaldstæðið,“ segir Ásta og bætir við að sem betur fer sé hætt að rigna þrátt fyrir að samkvæmt spánni hafi átt að rigna í dag líka. Því miður bendi allt til þess að það eigi að byrja að rigna á nýjan leik.

Tæplega 40 hús hafa verið rýmd í Odda og hafa 75 íbúar þurft að yfirgefa heimili sín þar. Í 

Flåm hafa 143 íbúar þurft að yfirgefa heimili sín.

Fimm hús sópuðust burt

Frétt NRK

Frétt VG

Kort sem sýnir hvar bærinn Odda er í Noregi
Kort sem sýnir hvar bærinn Odda er í Noregi Af vefnum Norway-Heritage
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert