Brittany Maynard er 29 ára gömul bandarísk kona með krabbamein í heila. Maynard hefur vakið heimsathygli vegna baráttu hennar fyrir rétti dauðvona fólks til að taka eigið líf.
Í vor tjáðu læknar Maynard að hún ætti aðeins hálft ár ólifað. Í kjölfarið flutti hún með fjölskyldu sinni frá San Fransisco til Oregon sem er eitt þeirra fimm fylkja Bandaríkjanna þar sem líknardráp er löglegt. Hún ákvað að eyða síðustu vikum lífs síns í að berjast fyrir vitundarvakningu um líknardráp og birti af þeim sökum greinar og myndbönd þar sem hún tilkynnti heiminum að hún hyggðist deyja með hjálp lyfja þann 1.nóvember.
Í dag setti Maynard nýtt myndband á heimasíðu sína þar sem hún segir að hugsanlegt sé að hún fresti dauðdaga sínum.
„Mér líður enn nógu vel og bý enn yfir nógu mikilli gleði og ég hlæ enn og brosi nóg með fjölskyldu minni og vinum til þess að þetta virðist ekki vera rétti tíminn,“ segir Maynard í myndbandinu. „En hann mun koma, því ég finn sjálfa mig verða veikari. Það er að gerast í hverri viku“