Faðir Söruh Payne fannst látinn

AFP

Michael Payne, faðir Söruh Payne, sem var myrt er hún var átta ára gömul árið 2000, fannst látinn á heimili sínu í Kent í Englandi.

Payne var 45 ára er hann lést en síðan dóttur hans var rænt og hún myrt í júlí árið 2000 hafði hann glímt við þunglyndi og drykkjusýki. Hann og þáverandi eiginkona hans, Sara, komust í kastljós fjölmiðla um allan heim þegar Söruh var leitað vikum saman sumarið 2000. Barnaníðingurinn Roy Whiting var síðar dæmdur og fangelsaður fyrir að hafa myrt litlu stúlkuna.

Sara vakti sérstaklega athygli fyrir að vinna með breskum fjölmiðlum þar sem hún biðlaði til mannræningjans um að skila dóttur þeirra aftur. 

Í frétt Guardian kemur fram að þau hjónin hafi skilið árið 2003 en hann var dæmdur í 16 mánaða fangelsi í desember 2011 fyrir árás á bróður sinn ofurölvi. Verjandi Paynes sagði á þeim tíma að það væri ömurlegt að sjá þær breytingar sem hefðu orðið á lífi hans eftir að dóttir þeirra var myrt. Hann hefði gengið í gegnum hörmungar sem ekkert foreldri ætti að þurfa að upplifa.

Whiting rændi Söruh þar sem hún var að leika sér úti skammt frá heimili afa síns og ömmu í Kingston Gorse eitt sumarkvöld í júlí 2000. Lík henn­ar fannst 16 dög­um síðar, nakið og hálfgrafið í jörðu. Whiting var oftar en einu sinni yfirheyrður vegna hvarfs hennar en ekki handtekinn fyrr en mörgum mánuðum síðar. Þá var upplýst að hann hafði verið dæmdur fyrir barnaníð nokkrum árum fyrr.

Mál Söruh Payne komst síðan aftur í kastljós fjölmiðla árið 2011 þegar breska lög­regl­an upplýsti að einka­spæj­ari, sem starfaði fyr­ir blaðið News of the World, hefði hlerað síma hennar.  

Í kjöl­far morðsins hóf blaðið News Of The World her­ferð, sem lauk með því að sett voru lög, svo­nefnd Söruh-lög. Sam­kvæmt þeim geta for­eldr­ar kraf­ist upp­lýs­inga hjá lög­reglu um hvort fólk, sem hef­ur reglu­legt sam­neyti við börn, hafi gerst sekt um kyn­ferðis­brot. Re­bekah Brooks, þáver­andi rit­stjóri blaðsins, stýrði her­ferðinni. 

Eftir að málið komst upp var útgáfu News of the World hætt líkt og fjallað hefur verið ítrekað um á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert