Þúsundir netnotenda hafa deilt mynd og sögum af kúrdískum kvenhermanni sem orðin er eins konar táknmynd fyrir baráttu Kúrda í sýrlenska bænum Kobane gegn samtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki. Sagt er að Rehana, engillinn af Kobane, hafi drepið allt að hundrað meðlimi samtakanna.
Kobane er meira og minna lokaður alþjóðasamfélaginu og þá fjölmiðlum og hefur því streymi frétta, ljósmynda og myndbanda þaðan verið lítið. En þess í stað hafa einstaka myndir af hermönnum Kúrda farið í dreifingu á netinu ásamt hetjusögum af þeim.
Engin saga hefur farið víðar en sagan af Rehönu, kvenhermanninum sem berst fyrir fólkið sitt gegn samtökum sem traðka á réttindum kvenna, nauðga og selja í ánauð.
Á vef breska ríkisútvarpsins, BBC, segir að komið hafi í ljós að myndin af Rehönu hafi sannarlega verið tekin í Kobane, 22. ágúst síðastliðinn, en óljóst sé um annað sem um hana er sagt.
Sænski blaðmaðurinn Carl Drott var á svæðinu þegar myndin var tekin en hún er af sjálfboðaliðum Kúrda. Drott segir að konan hafi aldrei verið í fremstu víglínu og því afar ólíklegt að hún hafi vegið nokkurn mann, hvað þá hundrað meðlimi samtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki.
„Hún kom upp að mér og sagðist vera laganemi frá Aleppo en að Ríki íslam hafi myrt föður hennar. Þess vegna hafi hún ákveðið að ganga til liðs við bardagamenn Kúrda,“ sagði Drott sem spurði hana ekki nafni. Nafnið Rehana dúkkaði upp síðar, þegar myndin fór í dreifingu, og er það ekki hefðbundið kúrdískt nafn.
Myndin af konunni var dreift strax 23. ágúst en lítið fór fyrir henni fyrr en í byrjun október þegar fregnir bráust af því að umrædd kona, sem nefnd var Rehana, væri látin. Þá kom fram að meðlimir Ríkis íslams hafi tekið hana höndum og gert hana höfðinu styttri.
Í kjölfar þess bárust sífellt fleiri sögur af Rehönu og var hún ýmist sögð lifandi eða látin. Sögunni af hetjudáð hennar og afrekum í bardögum var dreift víða og þar með leit dagsins ljós goðsögnin um engilinn af Kobane og lifir hún góðu lífi.
Ekki hefur hins vegar verið hægt að staðfesta það hvort Rehana sé lífs eða liðin.
Female #YPG fighter stands "ready to defend #Kobane from #ISIS with her life but international help is needed asap." pic.twitter.com/EiH4TbSGvU
— Slemani Times (@SlemaniTimes) September 27, 2014