Sonur eiganda ferjunnar sem hvolfdi og sökk í Suður-Kóreu í apríl síðastliðnum hlaut þriggja ára fangelsisdóm í morgun fyrir fjársvik.
Maðurinn var fundinn sekur um að hafa dregið sér um 7,2 milljónir bandaríkjadollara, rúmlega 883 milljónir íslenskra króna.
Peningana fékk maðurinn úr fyrirtækinu Chonghaejin Marine og sex dótturfyrirtækjum á árunum 2002 til 2013. Ferjan sem sökk var í eigu fyrirtækisins. Farið hafði verið fram á fjögurra ára fangelsi yfir manninum.
Þrír úr fjölskyldu mannsins hafa einnig verið handteknir í tengslum við málið, móðir hans og tveir frændur. Þá hefur systir hans einnig verið ákærð í Frakklandi fyrir fjársvik.