Kveikt á kjarnaofnum í Japan

AFP

Rúmum þremur árum eftir kjarnorkuslysið í Fukushima hefur verið ákveðið að kveikja aftur á tveimur kjarnaofnunum Sendai kjarnorkuversins þar sem síðustu hindruninni hefur verið rutt úr vegi þar sem sveitastjórnir hafa samþykkt að kveikt verði á ofnunum að nýju.

Þykir ákvörðun yfirvalda í Kagoshima um að heimila að kveikt verði á kjarnaofnunum mikill sigur fyrir ríkisstjórn Shinzo Abe en hún hefur sætt gagnrýni fyrir að þrýsta á að kveikt verði á kjarnaofnum kjarnorkuvera á ný. 

Í fréttaskýringu sem Kjartan Kjartansson ritaði í Morgunblaðið í september kom fram að öll 48 kjarnorkuver landsins hafi verið lokuð frá því að umtalsvert magn af geislavirkum efnum losnaði úr Fukushima Daiichi-kjarnorkuverinu í náttúruhamförunum sem riðu yfir Japan í mars 2011 og lifa íbúar svæðisins enn með afleiðingunum.

Enn hafa fleiri en 120.000 manns sem bjuggu í nágrenni Fukushima ekki getað snúið heim til sín vegna geislunarinnar. Könnun sem héraðsstjórnin þar lét gera fyrr á þessu ári leiddi í ljós að tæpum helmingi þeirra fjölskyldna sem bjuggu áður saman hafi verið sundrað eftir að fólki var skipað að rýma svæðið vegna hættunnar. Margir glíma ennfremur við líkamlega eða andlega kvilla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert