Saud bin Mohammed Al-Thani er látinn

Sheikh Saud bin Mohammed Al-Thani
Sheikh Saud bin Mohammed Al-Thani Af vef Wikipedia/ Benjamin Pietro Filardo

Einn helsti listaverkasafnari heims, Sheikh Saud bin Mohammed Al-Thani er látinn 48 ára að aldri. Samkvæmt frétt Artnet lést hann þann 9. nóvember á heimili sínu í Lundúnum. Dánarorsök hefur ekki verið birt en samkvæmt fréttinni bar andlátið brátt að en það var af eðlilegum orsökum. 

Sheikh Al-Thani er frændi núverandi emírs af Katar. Hann var forseti menningaráðs Katars frá 1997 til ársins 2005. Á valdatíma sínum hafði hann yfirumsjón með metnaðarfullum áformum olíuríkisins í mennta- og menningarmálum. Má þar nefna byggingu nýrra skóla, bókasafna og safna.

Hann eyddi yfir einum milljarð Bandaríkjadala, 124 milljörðum króna, í listaverk á þessum tímabili og er það hærri fjárhæð en nokkur annar einstaklingur hefur eytt í list, samkvæmt Artnet.

Konungsfjölskyldan í Katar er þekkt fyrir söfnunaráráttu sína, allt frá fornum handritum til samtímalistar. Á síðustu tveimur áratugum hefur Sheikh Al-Thani komið sér upp stóru safni listaverka og listmuna. Má þar nefna keramik, textíl, vísindabúnað og skartgripum. Verkunum hefur verið komið fyrir í fimm söfnum.

Sheikh Al-Thani var einnig þekktur fyrir að safna fornbílum, hjólum, antikhúsgögnum og kínverskum listmunum.

Frændi hans, Mohammeds bin Khalifa AlThani, er þekktur á Íslandi fyrir kaup á hlutabréfum í Kaupþingi í september 2008, nokkrum vikum fyrir hrun bankans en tekist er á um málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert