Allt á suðupunkti í Mexíkó

Það er allt á suðupunkti í Mexíkó og mótmæli stigmagnast dag frá degi. Upphafið má rekja til hvarfs 43 kennaranema í Guerrero-ríki í september. Í gær réðust mótmælendur inn í þinghús héraðsins og kveikt var í fimm bifreiðum fyrir utan þinghúsið í höfuðstað ríkisins, Chilpancingo.

Námsmennirnir hurfu sporlaust í bænum Iguala, þar sem þeir ætluðu að taka þátt í mótmælum, fyrir sex vikum. Mexíkósk yfirvöld segja að glæpagengi í ríkinu hafi játað að hafa myrt námsmennina og kveikt í líkunum. En líkamsleifar sem hafa fundist þar skammt frá hafa ekki enn verið tengdar við námsmennina.

Hvarf þeirra hefur vakið spurningar um tengsl yfirvalda og glæpamanna í Guerrero en svo virðist sem náið samband sé á milli bæjaryfirvalda í Iguala og Guerreros Unidos-glæpagengisins, segir í frétt BBC

Kveiktu í bókasafni og þingsal

Lögreglustjórinn í bænum hefur viðurkennt að hafa látið handtaka námsmennina þann 26. september og síðan sett þá í hendur liðsmanna Guerreros Unidos. Bæjarstjórinn, Jose Luis Abarca, er í haldi lögreglu og eiginkona hans einnig í tengslum við málið. Lögreglustjórinn er hins vegar enn á flótta undan réttvísinni.

En íbúar í ríkinu telja að spillingin nái hærra heldur en til yfirvalda bæjarins og krefjast aðgerða. Mótmælin eru tekin að breiðast út víðar um Mexíkó og má búast við að þetta sé aðeins upphafið, segir í grein New Yorker um ástandið í Mexíkó.

Talið er að um 500 námsmenn og kennarar hafi brotist inn í þinghúsið í Guerrero í gærkvöldi, kveikt elda í bókasafninu og þingsalnum sjálfum. 

Allt þetta hefur veikt stöðu forseta Mexíkó, Enrique Peña Nieto, sem ákvað að fara til Kína frekar en að lægja öldurnar heima fyrir. Mótmælendur hafa meðal annars kveikt í höfuðstöðvum flokks hans PRI í Chilpancingo og lokuðu leiðinni að flugvellinum í Acapulco í nokkra klukkutíma á þriðjudag.

Forsetinn harðlega gagnrýndur

Jose Antonio Crespo, prófessor í stjórnmálafræði við rannsóknasetur í efnahagsmálum og kennslufræðum í Mexíkóborg, segir í viðtali við AFP-fréttastofuna að mótmælin spilli fyrir alþjóðlegri ímynd forsetans.

„Þetta veikir ímynd hans og bendir til þess að hann sé ekki lengur sá sem ráði. Að hann viti hreinlega ekki hvernig eigi að bregðast við.“

Crespo segist ekki vita hvernig verði hægt að stöðva mótmælaölduna. 

En aftur að námsmönnunum horfnu. Samkvæmt upplýsingum frá ríkissaksóknaraembættinu eru þeir allir ungir karlar sem nema við kennaraháskóla sem þekktur er fyrir vinstristefnu. Að sögn saksóknara á bæjarstjórinn að hafa fyrirskipað lögreglu að handtaka þá þar sem hann óttaðist að þeir myndu trufla ræðuhöld eiginkonu hans. 

Jesus Murillo Karam, ríkissaksóknari, segir að liðsmenn glæpagengisins hafi viðurkennt að hafa myrt námsmennina á landfyllingu, kveikt í líkunum og mulið þau. Að lokum hafi þeir hent leifunum í á. En enn hefur ekki tekist að tengja saman lífsýni úr líkamsleifum sem fundust á þessum stað við námsmennina.

Foreldrar kennaranemanna, sem hafa enga trú á yfirvöldum, neita að trúa því að synir þeirra séu látnir og segja að þeir muni ekki taka mark á DNA-rannsókn fyrr en niðurstaða liggur fyrir frá sjálfstæðri argentínskri rannsóknarstofu sem nú kannar sýnin.

Frá Chilpancingo í gærkvöldi
Frá Chilpancingo í gærkvöldi AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka