Myndband sem virðist sýna meðlimi hryðjuverkasamtakana Ríkis íslams hálshöggva bandaríska hjálparstarfsmanninn Abdul-Rahman Kassig hefur verið birt á veraldarvefnum.
Kassig var rænt 1. október í fyrra þegar hann var á leið til Deir Ezzour í austurhluta Sýrlands. Hann hét áður Peter Kassig, en breytti nafni sínu í Abdul-Rahman þegar hann snerist yfir til íslamstrúar eftir að honum var rænt. Kassig var 26 ára gamall.
Hryðjuverkasamtökin höfðu hótað að myrða Kassig í myndbandi sem sýndi morðið á breskum gísl, Alan Henning, og birt var í síðasta mánuði.
Áður hafa samtökin einnig birt myndbönd sem virðast sýna böðla afhöfða tvo bandaríska blaðamenn, þá James Foley og Steven Sotloff.
Í nýjasta myndbandinu má sjá böðul sem stendur yfir höfði, sem hann segir vera af Kassig. Þá er einnig hópur sýrlenskra hermanna drepinn í myndbandinu.
Kassig skrifaði foreldrum sínum bréf í júní á þessu ári en þar sagðist hann vera hræddur við að deyja í haldi vígamanna.