Hætta friðarviðræðum við FARC

AFP

Forseti Kólumbíu, Juan Manuel Santos, segir að friðarviðræðum við FARC-skæruliðasamtökin hafi verið skotið á frest vegna mögulegs mannráns samtakanna.

Viðræðum við FARC hefur verið frestað þar til staðreyndir varðandi ránið á herforingjanum Ruben Alzate liggja fyrir segir í twitterfærslu varnarmálaráðuneytisins.

Friðarviðræður stjórnvalda við skæruliðasamtökin hafa staðið yfir með hléum síðustu tvö árin. Tilkynnt var um hvarf herforingjans í gær en samband við hann slitnaði þegar hann var á ferð um Quibdo snemma í gærmorgun. FARC-samtökin eru mjög öflug á þessum slóðum.

Santos hefur sent varnarmálaráðherrann, Juan Carlos Pinzon, til bæjarins Choco til að hafa hafa umsjón með leitinni og rannsókn hvarfsins. Santos segir að allt bendi til þess að skæruliðasamtökin standi á bak við hvarf Alzates.

FARC-samtökin voru stofnuð árið 1964 og er talið að liðsmenn þeirra séu um átta þúsund talsins. FARC hefur verið langöflugasta skæruliðahreyfing Rómönsku-Ameríku frá stofnun en hún fjármagnar starfsemi sína að stórum hluta með eiturlyfjasmygli og mannránum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka