Höfnuðu Keystone-leiðslunni

Frá mótmælum gegn Keystone XL-olíuleiðslunni í New York í gær.
Frá mótmælum gegn Keystone XL-olíuleiðslunni í New York í gær. AFP

Öldungadeild Bandaríkjaþings hafnaði tillögu sem hefði heimilað framkvæmdir við Keystone-olíuleiðsluna sem á að leggja frá Kanada yfir Bandaríkin í gær. Leiðslan hefur verið afar umdeild vegna umhverfisverndarsjónarmiða. Líklegt er þó að niðurstaðan fresti aðeins framkvæmdinni.

Keystone-olíuleiðslan flytur hráolíu frá tjörusöndum Alberta í Kanada til olíuvinnslustöðva meðal annars í Texas og Illinois í Bandaríkjunum. Síðasti áfangi leiðslunnar, svonefnd Keystone XL, á að liggja til Nebraska, tæplega 1.900 kílómetra leið frá Albertu. Fjöldi umhverfisverndarsinna, stjórnmálamanna og almennra borgara hefur lýst áhyggjum af framkvæmdunum.

Aðalhættan sem þeir óttast er olíuleki en auk þess hefur verið bent á að umtalsvert meira magn af gróðurhúsalofttegundum sem valda hnattrænni hlýnun hljótist af olíuvinnslu í tjörusandi en með hefðbundinni olíuvinnslu. Leki gæti spillt vatnsbólum, andrúmslofti og dýralífi en leiðslan liggur um mörg viðkvæm svæði. Stuðningsmenn leiðslunnar segja að hún muni skapa 40.000 störf í Bandaríkjunum.

Tekið upp af nýjum meirihluta í janúar

Framtíð olíuleiðslunnar er í höndum utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna. Barack Obama forseti hefur ítrekað lýst því yfir að þingið ætti að halda að sér höndum í málinu þar til að ráðuneytið sé búið að fara yfir fýsileika verkefnisins, þar á meðal hvort það geti stuðlað að enn frekari loftslagsbreytingum.

Keystone-olíuleiðslan kemur þó nær örugglega aftur á borð Bandaríkjaþings í janúar þegar nýtt þing tekur til starfa. Þá hafa repúblíkanar meirihluta í báðum deildum en þeir eru fylgjandi olíuleiðslunni.

„Þetta mál verður snemma á dagskrá næsta þings,“ sagði Mitch McConnell, leiðtogi repúblíkana í öldungadeildinni eftir að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar lá fyrir í gærkvöldi.

Frétt CNN af Keystone XL-olíuleiðslunni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert