John Boehner, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings og leiðtogi repúblikana í deildinni, hefur fordæmt ákvörðun Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, fyrir að fara á svig við lýðræðið með því að gefa út tilskipun og þrýsta í gegn aðgerðum í málefnum innflytjenda án aðkomu þingsins.
Hann segir að aðgerðirnar hafi skaðað möguleikann á að ná þverpólitískri samstöðu og skaðað sjálft forsetaembættið.
Aðgerðaráætlun Obama hefur þau áhrif að rúmar fjórar milljónir ólöglegra innflytjenda í Bandaríkjunum geti sótt um atvinnuleyfi í Bandaríkjunum.
Boehner segir hins vegar að aðgerðirnar muni leiða til þess að fleiri einstaklingar muni koma til landsins með ólögmætum hætti.
„Innflytjendakerfið er brotið og bandaríska þjóðin býst við að við störfum saman til að lagfæra það,“ sagði Boehner við blaðamenn í dag.
Hann sagði ennfremur, að Obama hefði hagað sér eins og „kóngur eða keisari“ en ekki farið eftir hinu lýðræðislega ferli.
Býður fimm milljónum atvinnuleyfi