Skutu drenginn í magann

Tamir Rice.
Tamir Rice.

Lögreglumenn í Cleveland í Bandaríkjunum skutu tvisvar á dreng sem var með leikfangabyssu á leikvelli um helgina. Annað skotið fór í maga hans. Hann var tólf ára.

Drengurinn var þeldökkur og hefur málið virkað sem olía í eld þeirra sem telja að bandaríska lögreglan beiti svarta íbúa landsins víða misrétti. Fljótlega mun kviðdómur ákveða hvort  hvítur lögreglumaður, sem skaut svartan pilt í bænum Ferguson til bana, verði ákærður. Málið í Ferguson í St. Louis hefur vakið gríðarlega athygli. Það átti sér stað í ágúst og síðan þá hafa mikil mótmæli staðið yfir í bænum og til átaka komið milli mótmælenda og lögrelgu. Pilturinn var óvopnaður en lögreglumaðurinn heldur því fram að hann hafi teygt sig í byssu hans og hann því orðið að verja sig og skjóta.

Á laugardag fékk lögreglan í Cleveland í Ohio tilkynningu um að maður væri að veifa byssu á leikvelli í borginni. Samkvæmt fréttum fjölmiðla vestanhafs skutu lögreglumennirnir, sem voru tveir á ferð, tvisvar á drenginn og fór að minnsta kosti annað skotið í maga hans. Drengurinn hét Tamir Rice. Hann lést í gærmorgun af sárum sínum. Í frétt blaðsins The Plain Dealer í Cleveland, var annar lögreglumaðurinn sem skaut nýr í starfi. Báðir lögreglumennirnir hafa verið settir í leyfi frá störfum á meðan rannsókn á málinu fer fram.

Þá kemur einnig fram í fjölmiðlum að sá sem hringdi í neyðarlínuna til að tilkynna um málið hafi sagt að byssan sem maðurinn væri að veifa á leikvellinum væri „líklega gervi“.

Í yfirlýsingu frá lögreglunni í Cleveland segir að lögreglumennirnir hafi beðið drenginn að rétta upp hendur. Það hafi hann ekki gert heldur þess í stað teygt sig í buxnastrenginn eftir byssunni. „Skotum var hleypt af og hinn grunaði var skotinn í búkinn,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.

Í yfirlýsingunni kemur einnig fram að um eftirlíkingu af skammbyssu hafi verið að ræða, ekki raunverulegt vopn.

Í ágúst skaut lögreglan mann til bana sem var að koma út úr búð með leikfangabyssu. Maðurinn, John Crawford, var svartur.

Eftirlíking af skammbyssu.
Eftirlíking af skammbyssu. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert