Skutu drenginn af 3 metra færi

Tuskudýr á leikvellinum þar sem Tamir Rice var skotinn til …
Tuskudýr á leikvellinum þar sem Tamir Rice var skotinn til bana af lögreglu. AFP

Lögreglumaður í Cleveland skaut 12 ára dreng til bana af mjög stuttu færi, þriggja metra, á leikvelli í borginni á laugardag. Lögreglan taldi að drengurinn væri vopnaður en hann var með leikfangabyssu. Myndbandsupptaka sýnir hvernig málið atvikaðist, að sögn lögreglunnar. Drengurinn var svartur og hefur málið orðið til að kynda undir ásökunum um að lögreglan í Bandaríkjunum beiti svarta órétti. 

Lögreglan hafði fengið tilkynningu um vopnaðan mann á leikvellinum. Sá sem tilkynnti sagði að byssan væri líklega „gervi. Ég veit ekki hvort byssan er ekta.“

Ekki er ljóst hvort lögreglumennirnir sem fóru í útkallið höfðu fengið þær upplýsingar, aðeins að um vopnaðan mann væri að ræða, að sögn lögreglustjórans, Edward Tomba, en formaður lögreglufélagsins í Cleveland heldur því fram að þeir hafi aldrei fengið upplýsingar um að hugsanlega væri maðurinn með leikfangabyssu.

Drengurinn sem lést hét Tamir Rice. Hann lést af sárum sínum á sunnudag. Byssan sem hann var með var leikfangabyssa en líktist mjög alvöru byssu. Leikfangabyssur sem þessar eru með appelsínugulum lit framan á hlaupinu en lögreglan segir að byssa Rice hafi ekki verið merkt slíkum lit.

Lögreglan segir að drengurinn hafi verið beðinn að rétta upp hendur og hafi verið skotinn er hann dró „byssuna“ upp úr buxnastreng sínum. Hann beindi byssunni aldrei að lögreglunni og hafði ekki í hótunum við hana. 

Lögreglustjórinn segir að upptaka úr eftirlitsmyndavél sýni skýrt hvað gerðist en vildi ekki útskýra það frekar. Myndskeiðið verður ekki birt að svo stöddu þar sem það er sönnunargagn í rannsókn málsins. 

Þingmenn í Ohio-ríki vilja að loftbyssur og aðrar leikfangabyssur verði merktar mjög áberandi svo að ekki fari á milli mála að þær séu ekki alvöruvopn. Í ágúst var annar maður, 22 ára, skotinn til bana af lögreglu fyrir utan Wal Mart-verslun. Sá var með loftbyssu sem hann hafði keypt í versluninni. Lögreglan segir að maðurinn, sem var 22 ára, hafi ekki hlýtt fyrirmælum lögreglu um að leggja byssuna frá sér.

Er rannsókn málsins lýkur mun kviðdómur fá það hlutverk að ákveða hvort ákæra eigi lögreglumanninn. Tveir lögreglumenn komu að málinu. Þeir eru báðir í leyfi frá störfum. Rice var skotinn tvívegis og hæfði annað skotið hann í maga.

Miklar óeirðir brutust út í bænum Ferguson í St. Louis í nótt í kjölfar þess að kviðdómur ákvað að ákæra ekki lögreglumann sem skaut átján ára svartan pilt til bana í ágúst. Pilturinn var óvopnaður en kviðdómurinn komst að því að lögreglumaðurinn hefði skotið hann í sjálfsvörn.

Frétt mbl.is: Skutu drenginn í magann

Mótmælt í Clevelan.
Mótmælt í Clevelan. AFP
Tamir Rice.
Tamir Rice.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert