Ætlar að hætta í lögreglunni

Lögreglumaðurinn Darren Wilson.
Lögreglumaðurinn Darren Wilson. AFP

Lögreglumaðurinn í Ferguson í Missouri sem skaut óvopnaðan svartan pilt til bana mun ekki hefja aftur störf í lögreglunni. Þetta segir lögmaður hans. 

Lögreglumaðurinn Darren Wilson á nú í viðræðum við lögreglustjórann í Ferguson um starfslok. Kviðdómur taldi ekki ástæðu til að ákæra hann þar sem hann hefði skotið drenginn í sjálfsvörn. Málið hefur hins vegar hrint af stað mótmælabylgju víðsvegar um Bandaríkin.

„Það er ekki möguleiki á að hann geti hafið aftur störf sem lögreglumaður,“ segir lögmaður hans, Neil Bruntrager. „Það er ekki spurning hvort hann hættir heldur hvenær.“

Pilturinn sem Wilson skaut var átján ára og hét Michael Brown. 

Bruntrager segir að Wilson geti ekki starfað sem lögreglumaður vegna hótana og þeirrar miklu reiði sem blossað hefur upp. „Það myndi eitthvað hræðilegt gerast á fyrsta degi,“ segir lögmaðurinn en Wilson var tímabundið vikið úr starfi meðan rannsókn málsins fór fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert