Fimmtán manns liggja í valnum og fjórtán til viðbótar eru særðir eftir það sem kínverskir ríkisfjölmiðlar kalla hryðjuverkaárás í Xinjiang-héraði. Meirihluti íbúa á svæðinu eru múslímar en hreyfing aðskilnaðarsinna vill að héraðið verði sjálfstætt ríki.
Í Xinjiang býr fólk af þjóðarbroti Uighur-manna sem eru menningarlega frábrugðnir meirihluta Kínverja sem eru af Han-ætt. Þeir eru að mestu leyti múslímar og tala tungumál sem kemur af tyrkneskri rót. Aðskilnaðarsinnar í Xinjiang, þar á meðal herskáir íslamistar, fýsa þess að stofna sitt eigið ríki, Austur-Túrkestan. Hefur fjöldi árása verið gerður þar en mikil spenna ríkir á milli ólíkra þjóðarbrotanna.
Kínverskir fjölmiðlar segja hryðjuverkamennina hafa ráðist á óbreytta borgara í verslunargötu í Shache-sýslu um miðjan dag í gær með hnífum og sprengjum. Þeir haf vegið fjóra þeirra en sært fjórtán aðra. Ellefu hryðjuverkamenn hafi verið skotnir í átökum við öryggissveitir.
Stjórnvöld í Beijing hafa undanfarið tekið harðar á óróa í Xinjiang. Hafa tugir manna verið teknir af lífi og hundruð meintra hryðjuverkamanna verið handteknir og dæmdir.