Mynd sem ljósmyndarinn Johnny Nguyen tók við mótmæli í Portland í Oregon fyrr í vikunni fer nú sem eldur í sinu um heimsbyggðina. Á myndinni sést hvítur lögreglumaður faðma grátandi blökkupilt sem tekur þátt í mótmælum vegna niðurstöðu kviðdóms í Ferguson-málinu.
Myndin birtist fyrst á vef Oregonian en Nguyen birti myndina á Instagram og þakkar hann öllum þeim sem vilja deila myndinni áfram. Þannig komist skilaboðin til skila.
Þann 25. nóvember kom fólk saman víðs vegar um Bandaríkin til þess að mótmæla ákvörðun kviðdóms um að hvítur lögreglumaður sem skaut átján ára blökkupilt til bana í bænum Ferguson til bana þyrfti ekki að svara til saka.
Meðal þeirra sem tóku þátt í mótmælum í Portland var Devonte Hart, tólf ára. Með honum á myndinni er lögreglumaðurinn Bret Barnum, sem faðmar piltinn að sér.
En þetta er ekki í fyrsta skipti sem Hart vekur jákvæðar tilfinningar meðal fólks því þrátt fyrir að vera aðeins tólf ára þá hefur hann gengið í gegnum meira en margir gera á lífsleiðinni.
Devonte var ættleidur af Hart hjónunum fyrir sjö árum síðan en þau eru hvít. Þá hafði hann búið á götunni frá því hann var smábarn, lent í skotbardaga, drukkið áfengi og orðið fyrir misnotkun. „Fólk er alltaf að segja okkur hversu heppinn hann var að við ættleiddum hann,“ segir mamma hans í grein sem birtist á Paper Trail blogginu. „En ég get sagt ykkur að það erum við sem erum heppin.“ „Já það er rétt og hann er lifandi sönnun þess að fortíð okkar gefur ekki alltaf tóninn um hver framtíð okkar verður,“ segir hún.
Þegar Devonte Hart fæddist fyrir tólf árum var líkami hans fullur af dópi líkt og móður hans. Hann ólst upp í skugga eiturlyfja, glæpa og misnotkunar og þegar hann var fjögurra ára hafði hann reykt, drukkið áfengi, sýslað með byssur, það hafði verið skotið á hann og hann beittur kynferðislegu ofbeldi. Hann kunni aðeins fáein orð, orð sem ekki eru prenthæf og hann kunni ekki heitin á einföldustu fæðutegundum hvað þá líkamshlutum.
Fyrir sjö árum breyttist allt þegar Sarah og Jen Hart ættleiddu Denvonte og systkini hans. Þetta hefur ekki verið dans á rósum og Sarah segir að í fyrstu hafi hún haldið að verkefnið væri vonlaust.