Forseti Kólumbíu, Juan Manuel Santos, segir FARC-skæruliðasamtökin hafa látið herforingja og tvo aðra gísla sem höfðu verið í haldi þeirra í tvær vikur lausa í dag. Yfirvöld skutu friðarviðræðum við samtökin á frest þegar upp komst um mannrán samtakanna.
„Frelsaðir... í fullkomnu ásandi,“ skrifaði Santos á Twitter-síðu sína í dag. Í stöðuuppfærslu hans kom fram að herforinginn, sem heitir Ruben Alzate og gíslarnir tveir myndu komast til fjölskyldna sinna mjög fljótlega.
Friðarviðræður stjórnvalda við skæruliðasamtökin hafa staðið yfir með hléum síðustu tvö árin. Tilkynnt var um hvarf herforingjans fyrr í mánuðinum en samband við hann slitnaði þegar hann var á ferð um Quibdo þar sem FARC-samtökin eru mjög öflug.
FARC-samtökin voru stofnuð árið 1964 og er talið að liðsmenn þeirra séu um átta þúsund talsins. FARC hefur verið langöflugasta skæruliðahreyfing Rómönsku-Ameríku frá stofnun en hún fjármagnar starfsemi sína að stórum hluta með eiturlyfjasmygli og mannránum.