Aldrei aftur, segir Obama

Obama hefur áður viðurkennt að Bandaríkjamenn hafi beitt pyntingum í …
Obama hefur áður viðurkennt að Bandaríkjamenn hafi beitt pyntingum í kjölfar árásarinnar á tvíburaturnana og Pentagon 2001. AFP

Barack Obama Bandaríkjaforseti sagði í dag að pyntingar bandarísku leyniþjónustunnar CIA á grunuðum hryðjuverkamönnum Al Kaída hefðu verið öfugverkandi og gengið gegn bandarískum gildum.

Hann sagði skýrslu þingnefndar öldungadeildar bandaríska þingsins sem birt var í dag styrkja þá skoðun sína að þær harkalegu aðferðir sem beitt var á leynilegum stöðum víða um heim hefðu ekki eingöngu verið ósamrýmanlegar gildum bandarísku þjóðarinnar, heldur hefðu þær ekki þjónað hagsmunum er vörðuðu þjóðaröryggi og baráttuna gegn hryðjuverkum.

„Enn fremur unnu þessar aðferðir umtalsverðan skaða á stöðu Bandaríkjanna í heiminum og gerðu erfiðara að vinna að hagsmunum okkar með bandamönnum og félögum,“ sagði forsetinn.

Hann sagðist myndu halda áfram að beita valdi sínu sem forseti til að tryggja að Bandaríkjamenn leituðu aldrei aftur í þennan aðferðabanka. Þá sagði forsetinn að öruggasta leiðin til að berjast gegn hryðjuverkum og tryggja öryggi Bandaríkjamanna, væri að halda trúfestu við hugsjónir þjóðarinnar.

Obama hét því hins vegar í dag að baráttunni gegn hryðjuverkum yrði áfram haldið.

„Engin þjóð er fullkomin. En einn af styrkleikum okkar, sem gerir Bandaríkin sérstök, er vilji okkar til að horfast í augu við fortíð okkar, horfast í augu við ágalla okkar, gera breytingar og gera betur,“ sagði forsetinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert