Yfirvöld í Nýju-Delí hafa ákveðið að banna starfsemi allra leigubílastöðva sem starfa á netinu en í gær var leigubílaþjónustunni Uber gert að hætta starfsemi í indversku borginni eftir að leigubílstjóri á hennar vegum var sakaður um að hafa nauðgað farþega.
Ung kona lagði fram kæru á hendur bílstjóra Uber í gær en hún sakaði hann um að hafa nauðgað sér um helgina. Skömmu eftir að tilkynnt var um nauðgunina ákváðu borgaryfirvöld að banna Uber að starfa í borginni. Í kjölfarið var öðrum leigubílastöðvum sem eru með starfsemi sína á netinu gert að hætta rekstri í Nýju-Delí þar sem þær fari ekki eftir þeim reglum sem gilda um leigubílaakstur þar.
Yfirmaður hjá Uber segir hins vegar í samtali við AFP-fréttastofuna í dag að fyrirtækið sé enn starfandi í Nýju-Delí og að ekki hafi borist nein formleg beiðni frá borgaryfirvöldum um að hætta akstri. Ef slík formleg beiðni berst verði henni áfrýjað um leið.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu virðist Uber ekki hafa kannað bakgrunn leigubílstjórans sem var kærður fyrir nauðgun nú en hann var sýknaður af sambærilegri kæru árið 2012.
Að sögn fórnarlambsins sofnaði hún í leigubílnum á heimleið úr matarboði. Þegar hún vaknaði hafði bílstjórinn lagt leigubílnum á afviknum stað og þar réðst hann á konuna og nauðgaði henni áður en hann henti henni út úr bílnum, skammt frá heimili hennar í norðurhluta borgarinnar.