Bush vissi allt

Fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, George W Bush, vissi allt um það hvaða aðferðum leyniþjónusta Bandaríkjanna (CIA) beitti við yfirheyrslur, að sögn Dick Cheney, sem var varaforseti Bandaríkjanna í valdatíð Bush yngri.

Cheney lét þessi orð falla í viðtali við Fox sjónvarpsstöðina og jafnframt sagði hann að skýrsla sem njósnanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings lét vinna og var birt að hluta í fyrradag, væri full af þvættingi.

Í skýrslunni er því haldið fram að  CIA hafi villt um fyrir stjórnmálamönnum um hvaða aðferðum væri beitt en CIA hefur varið aðgerðirnar, svo sem vatnspyntingar, sem var beitt á þá sem voru grunaðir um aðild að hryðjuverkaárásunum á Bandaríkin þann 11. september 2001.

Gagnrýnir skýrsluna harðlega en viðurkennir að hafa ekki lesið hana

En Cheney gefur ekki mikið fyrir ummæli skýrsluhöfunda um að CIA hafi  beitt ómannúðlegum aðferðum við yfirheyrslur og leynt stjórnmálamenn því og um leið forseta Bandaríkjanna. „Þetta er einfaldlega lygi,“ segir Cheney í viðtali við Fox.

Í viðtalinu segir Cheney að skýrslan sé meingölluð og hryllilega illa unnin, þrátt fyrir að viðurkenna svo í viðtalinu að hann hafi ekki lesið hana alla.

„Bush forseti vissi allt sem hann þurfti að vita og vildi vita,“ um yfirheyrsluaðferðir CIA, sagði Cheney. „Hann þekkti aðferðirnar... ég reyndi ekkert til þess að halda þeim upplýsingum frá honum. Hann var upplýstur um allt,“ sagði Cheney.

Samkvæmt frétt BBC hefur Bush ekki tjáð sig um skýrsluna eftir að hún var birt en í viðtali við CNN á sunnudag varði hann CIA og starfsemi leyniþjónustunnar.

„Við erum lánsöm að hafa bæði karla og konur sem leggja sig fram hjá CIA um að þjóna okkur,“ sagði Bush í viðtali við CNN á sunnudag.

Í skýrslunni er greint frá hrottalegum aðferðum sem leyniþjónustan beitti við yfirheyrslur á mönnum sem voru grunaðir um að vera liðsmenn Al-Qaeda. Þetta hafi hins vegar ekki skilað þeim árangri sem vænst var.

En Cheney er ekki sammála og segir að þetta hafi bjargað mannslífum og að leyniþjónustan ætti hrós skilið ekki gagnrýni. Með þessum yfirheyrslum hafi Bandaríkjunum verið forðað frá fleiri hryðjuverkaárásum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert