Öll óvopnuð, öll svört

Mótmælendur minna á að svört líf skipta einnig máli.
Mótmælendur minna á að svört líf skipta einnig máli. AFP

Atvik þar sem að óvopnaðir einstaklingar eru skotnir til bana af lögreglu í Bandaríkjunum hafa verið í brennidepli undanfarnar vikur og mánuði. Mótmælaalda hefur gengið yfir landið í kjölfar þess að hvít­ir lög­reglu­menn í Fergu­son, New York og víðar hafa ekki þurft að sæta neinni refs­ingu fyr­ir að drepa óvopnaða blökku­menn.

Mótmælin í kringum dauðsföll þeirra Mike Brown í Fergusson í Missouri og Eric Garner í New York hafa mögulega vakið mesta athygli. Þeir Brown og Garner eru þó ekki þeir einu sem féllu eftir átök við lögreglu á árinu og er í raun ómögulegt að vita hversu margir óvopnaðir verða fyrir skotum lögreglu í Bandaríkjunum á ári hverju.

Vefsíðan Buzzfeed hefur þó tekið saman mál ellefu einstaklinga sem gerðust á þessu ári. Öll eiga þau sameiginlegt að hafa verið óvopnuð og drepin af lögreglu. Athygli vekur að tíu á lista Buzzfeed eru svartir.

Þann 30. apríl var Dontre Hamilton skotinn fjórtán sinnum af lögreglumann í almenningsgarði í Milwaukee í Bandaríkjunum. Hamilton var 31 árs gamall og hafði verið greindur með geðklofa og sá ofskynjanir. Lögreglumaðurinn Christopher Manney segist hafa skotið Hamilton eftir að þeir lentu í átökum. Lögreglumaðurinn taldi að Hamilton væri heimilislaus, undir áhrifum lyfja og áfengis, geðsjúkur og hættulegur. Hann hélt jafnframt að bungur í fötum hans væru vopn og hélt því fram að Hamilton væri yngri, sterkari og í betra formi en hann sjálfur. 

Samkvæmt Manney á Hamilton að hafa náð kylfu hans á meðan að átökunum stóð og lamið hann í hálsinn og höfuðið. Aðeins sekúndum síðar hafði Manney skotið hann til bana. 

Krufning á Hamilton leiddi í ljós að hann var skotinn í bakið aftan frá. Það fundust engin lyf í blóði hans. Jafnframt sýndi krufningin að hann hefði verið með hendur uppi og engin ógn gagnvart lögreglumanninum. Samkvæmt krufningu var Hamilton í yfirþyngd og lýsing lögreglumannsins því röng. 

Lögreglumaðurinn hefur nú verið leystur frá störfum og er málið enn í rannsókn.

„Ég get ekki andað“

Eric Garner lést eftir að lögreglumaður tók hann heng­ing­ar­taki á gang­stétt í Tompk­insville á Staten-eyju í New York 17. júlí. Málið vakti heimsathygli þar sem að atvikið náðist á myndband. Í myndbandinu sést þegar að Garner segir lögreglumanninum þrisvar að hann geti ekki andað. 

Garner var óvopnaður og hafði deilt við lög­reglu­menn sem sökuðu hann um að selja ólög­leg­ar síga­rett­ur.

Lögreglumaðurinn, Daniel Pantaleo, sagðist hafa notað hegningartak sem hann lærði í lögregluskólanum. Í tilkynningu frá sambandi lögregluþjóna í New York kom fram að Pantaleo væri fyrirmynd hvernig lögreglumenn ættu að vera.

Í síðustu viku ákvað kviðdómur í New York að Pantaleo skyldi ekki vera ákærður fyrir dauða Garner. Hefur þeirri ákvörðun verið mótmælt út um öll Bandaríkin, aðallega í New York.

Eiginkona Garner, Esaw, segist þó ákveðin í því að ná réttlæti. Ætlar fjölskyldan að höfða mál gegn lögreglunni og borginni og biður um 75 milljónir bandaríkjadali í skaðabætur. Það eru 9,3 milljarður íslenskra króna.

Tveggja barna faðir skotinn í Walmart

5. ágúst var John Crawford III skotinn til bana af lögreglumönnum í Walmart búð í Beavercreek í Ohio. Hringt hafði verið í Neyðarlínuna eftir að Crawford, sem er 22 ára og tveggja barna faðir, sást í búðinni með byssu. Eftir að hann var skotinn kom í  ljós að byssan var leikfangabyssa. 

Lögreglumaðurinn sem skaut, David Darkow, hélt því fram við skýrslutöku að hann hafi skotið Crawford eftir að hann neitaði tvisvar að leggjast á jörðina og sýndi árásagjarna hegðun. Upptaka eftirlitsmyndavéla sýnir þó að Crawford hafi aðeins gengið um með byssuna, án þess að beina henni að fólki. Á upptökunni sést einnig hvernig Darkow skýtur manninn aðeins sekúndu eftir að hann segir honum að leggjast á jörðina.

Í september ákvað kviðdómur að hvorugur lögreglumannanna skyldi vera ákærður. 

Óvopnaður og skotinn tólf sinnum

Saga Michael Brown hefur líklegast vakið mesta athygli á árinu. Lög­reglumaður­inn Dar­ren Wil­son, skaut hann til bana 9. ágúst í Fergu­son St Lou­is í Banda­ríkj­un­um. Hann held­ur því fram að hann hafi stöðvað Brown því hann var grunaður um að hafa stolið vindlingum úr búð. Hélt hann því jafnframt fram að Brown hafi ögrað sér og sagt að hann væri of mik­ill heig­ull til að skjóta sig. Wil­son skaut Michael Brown tólf skot­um. Hann lést samstundis.

Vitni halda því þó fram að Brown hafi verið uppi með hendur er Wilson skaut. Dauði piltsins hefur leitt til gríðarlegra mótmæla, ofbeldis og skemmdarverka í Ferguson þar sem að flestir íbúar eru svartir. 

Önnur mótmælaalda gekk yfir í síðasta mánuði þegar að kviðdómur ákvað að Wilson skildi ekki vera ákærður fyrir morðið á Brown. Náði sú mótmælaalda yfir öll Bandaríkin og einnig til Evrópu.

Wilson var leystur frá störfum og mun ekki starfa áfram sem lögreglumaður. Hann segist þó vera með hreina samvisku þar sem hann var aðeins að vinna starf sitt.

Lá í jörðinni og var skotinn í bakið

Aðeins tveimur dögum síðar var annar ungur þeldökkur maður, Ezell Ford Jr. skotinn til bana af lögreglu í Los Angeles. Halda lögreglumennirnir því fram að þeir hafi átt í stympingu við Ford sem leiddu til þess að þeir skutu hann. Ford, sem átti við andleg veikindi að stríða, var á gangi á gangstétt í Los Angeles þegar að lögreglumennirnir tveir komu til hans. Að sögn þeirra heilsaði Ford þeim, hélt áfram að ganga en „hreyfði sig grunsamlega“ og faldi hendi sína. Á Ford síðan að hafa ráðist á annan lögreglumanninn og reynt að ná byssu hans, Varð það til þess að hinn lögreglumaðurinn skaut. Vitni halda því þó fram að Ford hafi verið að hlýða fyrirmælum lögreglumannanna og var á jörðinni þegar hann var skotinn nokkrum sinnum í bakið. Síðan var hann handjárnaður og lést Ford stuttu síðar á sjúkrahúsi. 

Málið er enn í rannsókn og hafa ný vitni verið kölluð til. Fjölskylda Ford hefur nú höfðað mál gegn lögreglunni vegna dauða hans. 

Tólf ára með leikfangabyssu

Þann 22. nóvember skutu lög­reglu­menn í Cleve­land tvisvar á Tamir Rice sem var með leikfangabyssu á leikvelli. Annað skotið fór í maga hans og daginn eftir lést hann á sjúkrahúsi. Lögregla taldi að Rice væri með alvöru byssu. Hann var tólf ára gamall þegar hann lést.  

Hringt hafði verið á Neyðarlínu og tilkynnt um að einstaklingur með byssu væri á leikvelli. Sá sem hringdi sagði þó að líklegast væri byssan gervi.

Eins og fram kom í frétt mbl.is um málið stóð í yf­ir­lýs­ingu frá lög­regl­unni í Cleve­land að lög­reglu­menn­irn­ir hafi beðið dreng­inn að rétta upp hend­ur. Það hafi hann ekki gert held­ur þess í stað teygt sig í buxn­a­streng­inn eft­ir byss­unni. „Skot­um var hleypt af og hinn grunaði var skot­inn í búk­inn.“

Báðir lögreglumennirnir hafa verið settir í leyfi á meðan málið er rannsakað. 

Rotaðist er lögreglumaður ýtti henni í jörðina

Tanesha Anderson, lést 12. nóvember eftir að lögreglumenn lömdu höfði hennar í gangstétt í Cleveland í Ohio. Voru lögreglumennirnir að færa konuna í varðhald er hún lést.

Fjölskylda Andrerson, sem var 37 ára, segja að hún hafi bæði verið geðklofa og barist við geðrof. Lögregla var kölluð til að heimili hennar vegna óláta. Eftir að lögreglumenn og fjölskyldumeðlimir konunnar ákváðu að hún þyrfti að fara á viðeigandi stofnun reyndu lögreglumennirnir að setja hana inn í bíl. 

Lögreglumönnunum og fjölskyldumeðlimunum ber ekki saman um hvað gerðist næst. Lögregla segir að Anderson hafi orðið árásargjörn og neitað að fara inn í bílinn. Á hún að hafa sparkað í lögregluþjónana. Bróðir hennar, sagði þó fjölmiðlum að lögreglumaður hafi ítrekað ýtt höfði hennar niður á jörðina þegar hún reyndi að komast frá bílnum. Á hún að hafa misst meðvitund í kjölfarið. Hún lést stuttu síðar. 

Málið er enn í rannsókn og lögreglumennirnir eru enn við störf. 

Þetta eru aðeins nokkur dæmi um þá sem hafa látið lífið á árinu eftir átök við lögregluþjóna. Lista Buzzfeed í heild sinni má sjá hér. 

Eric Garner deilir við lögreglumennina áður en átökin hefjast.
Eric Garner deilir við lögreglumennina áður en átökin hefjast. Skjáskot
Michael Brown
Michael Brown Ljós­mynd/​Fés­bók­arsíðan Justice For Michael Brown
John Crawford III
John Crawford III Af Facebook
Tanesha Anderson var 37 ára þegar hún lést.
Tanesha Anderson var 37 ára þegar hún lést. Af heimasíðu Justice for Tanesha Anderson
Hinn tólf ára gamli Tamir Rice sem skotinn var til …
Hinn tólf ára gamli Tamir Rice sem skotinn var til bana af lögreglumanni í Cleveland í nóvember. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert