Konstantin Dolgov, sendierindreki mannréttindamála í utanríkisráðuneyti Rússlands hefur nú fordæmt meintar pyntingar CIA á föngum á valdatíð George W. Bush.
Í nýrri skýrslu CIA koma fram nýjar upplýsingar um harkalegar aðferðir CIA og pyntingar á föngum til ársins 2009. Pyntingarnar voru til að mynda notaðar á meinta meðlimi Al-Kaída. Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur fordæmt pyntingarnar og sagt þær vera öfugverkandi og gengið gegn bandarískum gildum.
„Innihald skýrslunnar er átakanlegt,“ sagði Dolgov um skýrsluna. „Þetta er sönnun á þeim grófur kerfisbundnu brotum á mannréttindum sem bandarísk yfirvöld stunda.“
Sagði hann jafnframt að svona upplýsingar ættu ekki vel við Bandaríkin „sem þykist vera fyrirmyndar lýðræðisríki. Það er langt frá raunveruleikanum,“ sagði hann í yfirlýsingu.
Hann bætti því við að flest atriði skýrslunnar væru enn óbirt og hvatti alþjóðleg mannréttindasamtök og aðgerðasinna til þess að þrýsta á Bandaríkin til þess að gefa út allar upplýsingarnar.
Samkvæmt skýrslunni voru svonefnd vatnsbrettaaðferð, barsmíðar, niðurlæging, kæling og svefntruflanir meðal pyntingaaðferða CIA.