Al-Qaeda hryðjuverkasamtökin segja að Bandaríkjaforseti, Barack Obama, beri ábyrgð á dauða tveggja gísla í Jemen, bandarísks blaðamanns og suðurafríks kennara, um helgina. Þetta kemur fram í myndbandi sem hryðjuverkasamtökin hafa sent frá sér og birt var í dag.
„Obama tók ranga ákvörðun og undirritaði dauðadóm yfir bandarískum samlanda sínum, Luke Somers, sem ásamt Suður-Afríkubúanum Pierre Korkie var drepinn á laugardag,“ segir yfirmaður al-Qaeda á Arabíuskaga (AQAP), Nasser bin Ali al-Ansi, í myndskeiðinu.
Somers og Korkie voru skotnir og særðir til ólífs af mannræningjunum sem voru með þá í haldi þegar bandarískir sérsveitarmenn reyndu að bjarga þeim úr haldi al-Qaeda í suðvesturhluta Jemen.
Til stóð að sleppa Korkie daginn eftir úr haldi mannræningjanna.
Samkvæmt bandarísku stofnuninni SITE Intelligence Group var Somers rænt í höfuðborg Jemen í september 2013. Korkie var rænt ásamt eiginkonu sinni í maí 2013 en henni var sleppt í janúar.
Bandarísk stjórnvöld telja að AQAP samtökin séu hættulegustu samtökin innan al-Qaeda og beri ábyrgð á þeirri óöld sem hefur ríkt í Jemen frá árinu 2011 er forseti landsins, Ali Abdullah Saleh, neyddist til þess að víkja.