Þegar tíðni hrottafenginna yfirheyrsla bandarísku leyniþjónustunnar á grunuðum hryðjuverkamönnum jókst snemma árs 2013, sagði heilbrigðisstarfsmaður sem starfaði fyrir leyniþjónustana við kollega sinn að hlutverk þeirra, að vera samviska stofnunarinnar og setja aðferðum takmörk, hefði augljóslega breyst.
Þetta kemur fram í samantekt skýrslu þingnefndar öldungadeildar bandaríska þingsins um aðgerðir CIA í kjölfar hryðjuverkaárásanna 11. september 2001. Í tölvupósti sagði viðkomandi starfsmaður að heilbrigðisstarfsfólk CIA hefði nú það hlutverk að hámarka árangur á öruggan hátt og halda öllum utan vandræða.
Að því er fram kemur í þeim köflum skýrslunnar sem hafa verið birtir, voru læknar og sálfræðingar á vegum leyniþjónustunnar viðriðnir næstum hverja einustu yfirheyrslu sem fram fór. Þá var aðkoma þeirra meiri en áður hafði verið vitað.
Læknar á vegum heilbrigðissviðs CIA fylgdust með yfirheyrslunum en samkvæmt Washington Post er fátt sem bendir til þess að þeir hafi gripið inn í til að stöðva yfirheyrslur þar sem grófum aðferðum var beitt.
Í sumum tilvikum vöruðu þeir við því að fyrirhugaðar og yfirstandandi yfirheyrslur færu fram úr þeim viðmiðum sem þeir höfðu sett. En í flestum tilfellum virðist heilbrigðisstarfsfólkið hafa lagt sitt af mörkum til framkvæmdarinnar, m.a. með því að ráðleggja að losa fjötra til að komast hjá bjúg þegar fangar voru látnir standa í lengri tíma, búa um sár með plastumbúðum þegar föngum var haldið undir vatni og gefa næringu um stólpípu, sem einn yfirmanna CIA sagði gefa leyniþjónustunni „algjört vald“ yfir föngunum.
Sérfræðingar í heilbrigðissiðfræði hafa lýst yfir hneykslan vegna þátttöku heilbrigðisstarfsfólks í yfirheyrslunum, og þá ekki síst því að þeir hafi framkvæmt aðgerðir á borð við áðurnefnda stólpípu, svokallaða „rectal feeding“.
„Það er ekkert til sem heitir að næra um stólpípu. Það er ekki hægt lífeðlisfræðilega séð; það er enginn vefur í ristlinum sem getur tekið upp næringarefni... Þetta er ekki nokkurs konar læknisfræðileg aðferð, þetta er bara verkfæri til að valda gríðarlegum sársauka,“ segir Steven Miles, prófessor í lífsiðfræði við læknadeild háskólans í Minnesota.
Bandarísku læknasamtökin hafa fordæmt þátttöku lækna í pyndingum af því tagi sem stundaðar voru við yfirheyrslurnar og segja hana brjóta gegn grundvallar siðfræðilegum gildum. Þá hafa samtökin Physicians for Human Rights kallað eftir því að viðkomandi verði dregnir til ábyrgðar fyrir aðkomu sína, þar sem þeir hafi átt lykilþátt að því að veita þeim sem framkvæmdu yfirheyrslurnar lagalegt skjól.