Maður sem að mætti Sheikh Man Haron Monis, manninum sem hélt fólki í gíslingu á kaffihúsi í Sydney í dag, hefur nú sagt sögu sína. Craig Stoker var á leið út úr kaffihúsinu þegar að hann rakst á Monis. Stoker sagði The Daily Telegraph sögu sína fyrr í dag.
„Hann var í svörtum bol með hvítum stöfum á, ennisband og hélt á bláum poka,“ segir Stoker. „Pokinn rakst í mig og það var eitthvað hart í honum.“
Stoker brást ekki vel við því og segist hafa sagt Monis að fara varlega.
„Hann sneri sér við og sagði: „Viltu að ég skjóti þig líka?“,“ segir Stoker. „Ég horfði í augun á honum og það var óþægilegt.“
Frá kaffihúsinu fór Stoker á sjúkrahús í Sydney til þess að láta taka úr sauma. Honum brá skiljanlega þegar hann heyrði af umsátrinu.
„Mér brá alveg rosalega. Ég ætla að kaupa mér lottó miða núna.“