Katrina Dawson reyndi hvað hún gat að skýla óléttri vinkonu sinni sinni fyrir vopnuðum Man Haron Monis, manninum sem tók fólk í gíslingu á kaffihúsi í Sydney í gær. Vinkona hennar lifði af en Monis skaut Dawson til bana. Sjálf var Dawson móðir þriggja barna.
Þetta kom fram í máli erkibiskupsins Anthony Fisher á minningarathöfn sem haldin var um þau sem féllu í árásinni. „Skýrslur hafa sýnt að Dawson skýldi óléttri vinkonu sinni fyrir skothríðinni,“ sagði hann.
Dawson sat á kaffihúsinu með vinnufélaga og drakk kaffibolla þegar maðurinn tók 17 mann í gíslingu. Hún var 38 ára lögfræðingur og vel liðin meðal samstarfsmanna sinna.
Þá var hún einnig móðir þriggja barna. Þau eru þriggja ára, fimm ára og átta ára. Þau hafa fengið upplýsingar um andlát móður sinnar.
Rætt hefur verið við vini og samstarfsmenn hennar í fjölmiðlum. Haft er eftir sinni vinkonu hennar að hún hafi verið manneskja sem gaf alltaf 100% í allt sem hún gerði. Hún stóð sig vel í skóla og vinnu.
„Hún var vissulega klár, en hún var miklu meira en það, hún var traust, hlý og góð. Hún var gífurlega hvetjandi. Hún keppti við sig sjálfa, frekar en aðra og vildi alltaf reyna að bæta sín eigin met. Hún deildi gjarnan tíma sínum, þekkingu og vináttu,“ er meðal annars haft eftir vinkonu hennar.
Vinkona hennar telur að hún hefði ekki dæmt morðingjann. „Hún talaði aldrei illa um nokkurn og reyndi að sjá hlutina út frá sjónarhorni annarra.“