Sala á vínylplötum í Bandaríkjunum, það sem af er þessu ári, hefur aukist um 49% á milli ára. Alls hafa selst um 7,9 milljónir platna vestra í ár en þær voru rétt rúmlega sex milljónir í fyrra. Framleiðsla á vínylplötum er ekki einföld og það er hægara sagt en gert að auka framleiðslugetuna vegna aukinnar eftirspurnar.
Wall Street Journal fjallaði í síðustu viku um gott gengi vínylplötusölu í Bandaríkjunum í ár, en þar kemur fram að tónlistarmaðurinn Jack White, sem er þekktastur fyrir að láta gítarinn væla í hljómsveitinni The White Stripes, tróni á toppi listans yfir mest seldu vínylplöturnar. Önnur sólóbreiðskífa hans, Lazaretto, hefur selst í tæplega 76.000 eintökum, miðað við tölur frá byrjun nóvember. Þetta er vissulega dropi í hafið þegar heildarsala tónlistar er tekin með í reikninginn, en sala á vínylplötum í Bandaríkjunum er aðeins um 2% af heildarsölunni.
Samkvæmt yfirliti Nielsen SoundScan hefur sala á vínylplötum verið á stöðugri uppleið í Bandaríkjunum frá árinu 2006, en þá nam salan um einni milljón vínylplatna.
Á Íslandi nemur sala á vínylplötum um 10% af heildarveltu markaðarins. Geisladiskar nema um 60% og stafrænir miðlar, eins og Spotify, um 30%, en hún var um 10% veltunnar í fyrra. Í síðasta tölublaði Fréttatímans var rætt við Eið Arnarson, framkvæmdastjóra Félags hjómplötuframleiðenda, sem segir frá því að heildarsala platna á þessu ári - þá eru geisladiskar taldir með - hafi dregist saman um 15% á milli ára. Eiður segir það áhyggjuefni en hann bendir á að neyslan sé að færast yfir á stafrænu miðlana.
Hvað varðar plötusölu almennt, þá hefur lengi verið deilt um hljómgæðin. Þegar geisladiskurinn braust fram á sjónarsviðið á níunda áratugnum var því haldið fram að hljómgæðin væru betri en á vínylplötum.
Um þetta hafa tónlistarnerðir jafnt sem Nonni nágranni deilt um allt til dagsins í dag, en hörðustu stuðningsmenn vínylsins segja að hljómurinn á honum sé mun hlýrri, fyllri og einfaldlega betri - að ekki sé talað um sjálfa athöfnina sem fylgi því að setja plötu á fóninn. Hljómgæðin fara þó vissulega einnig eftir gæðum hljómflutningstækjanna og hátalara en síðast en ekki síst eftir heyrn hvers og eins.
Í ítarlegri umfjöllun Wall Street Journal er einnig fjallað um vélbúnaðinum sem framleiðir vínylplötur. Þó að nýja plötur berist í verslanir í hverri viku þá eru framleiðslutækin mörg hver komin vel til ára sinna og það er aðeins eitt fyrirtæki sem útvegar um 90% alls hráefnis sem framleiðslutækin þurfa á að halda. Bent er á að um það bil 15 fyrirtæki framleiði plötur í Bandaríkjunum og flest glíma þau við ýmis vandamál á borð bilanir og birgðaskort.
Tónlistariðnaðurinn stendur því frammi fyrir þeim vanda á sama tíma og framleiðsla á vínylplötum er í sókn þá er iðnaðurinn á síðasta snúningi - í eiginlegri merkingu.
Á Bretlandseyjum hafa meira en ein milljón vínylplatna á þessu ári og er þetta í fyrsta skipti sem þessi múr er rofinn frá árinu 1996. Tölurnar þykja koma á óvart enda ræður nú stafræn tækni lögum og lofum í tónlistariðnaði sem og á öðrum sviðum, að því greint var frá í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um liðna helgi. Þar kom ennfremur fram, að Sérfræðingar í tónlistariðnaði eru þó á einu máli um að vínyll muni áfram verða jaðaráhugamál.
Það er hins vegar ljóst að vínyllinn er ekki dauður úr öllum æðum, en sumir tónlistarmenn gefa sína tónlist eingöngu út á vínyl og þá er vinsælt að endurgefa plötur út á vínyl. Flestir gefa hins vegar út á mörgum miðlum og er geisladiskurinn ekki búinn að syngja sitt síðasta heldur, þrátt fyrir innreið stafrænna miðla á borð iTunes, YouTube og Spotify.
Það er aftur á móti ljóst er að vínylplatan mun aldrei ná fyrri hæðum, en gullöld vínylplötunnar stóð frá miðjum sjöunda áratugnum til loka áttunda áratugarins, þegar Bítlar og Hljómar riðu um héruð og Zeppelin-loftför flugu inn um útidyrnar.