Framleiðslufyrirtækið Sony Pictures hefur hætt við að gefa út kvikmyndina The Interview vegna hótana sem hafa borist frá tölvuþrjótum. Kvikmyndin fjallar morð á forseta Norður-Kóreu, Kim Jong-Un. Sky News segir frá þessu.
Fyrirtækið segir að ákvörðun um að hætta við sýningu á myndinni hafi verið tekin í kjölfar þess að stór kvikmyndahús í Bandaríkjunum hættu við að sýna myndina eftir hótanir hakaranna. Sony segist heldur ekki ætla að gefa út kvikmyndina á DVD eða sýna hana í sjónvarpi.
Tölvuhakkararnir tilheyra sama hóp sem hefur birt netföng og stolið upplýsingum frá Sony. Það mál er nú í rannsókn í Bandaríkjunum og hefur slóð hakkarana verið rakin til Norður Kóreu. Stjórnvöld þar neita að tengjast málinu á einn eða annan hátt.
Hakkararnir kalla sig á ensku „Guardians of Peace“, eða Friðargæsluliðarnir.
„Við munum sýna ykkur á þeim stöðum og tímum sem The Interview verður sýnd, þar á meðal á frumsýningu, hversu slæm örlög þeir sem gera grín af hryllingi fá,“ kom fram í skilaboðum frá þeim.
„Fljótlega mun allur heimurinn sjá hversu hræðilega mynd Sony Pictures Entertainment hefur gert. Heimurinn verður fullur af ótta.“
Í dag sagði talsmaður Hvíta Hússins, Josh Earnest að litið væri á árás tölvuhakkarana sem ógn gegn þjóðaröryggi og að „hlutfallslegt svar“ væri nú í skoðun. Hann sagðist jafnframt ekki vera í stöðu til þess að staðfesta að Norður-Kórea stæði á bakvið árásina.
Heimsþekktir leikarar eins og Ben Stiller, Robe Lowe og Steve Carrell hafa mótmælt ákvörðun Sony á samfélagsmiðlum í gær og í dag. Sagði Stiller til dæmis að með ákvörðuninni væri vegið að tjáningarfrelsi í Bandaríkjunum. Steve Carrell tók í sama streng og sagði að dagurinn í gær hafi verið slæmur dagur fyrir „skapandi frelsi“. Sky News segir frá þessu.