Ekki hafa verið gefnar nákvæmar upplýsingar um ástæðu þess að lögregla ákvað að gera áhlaup á Lindt-kaffihúsið í Sydney í Ástralíu.
Faðir eins þeirra sem Man Haron Monis hélt í gíslingu í kaffihúsinu segir að lögregla hafi ákveðið að ráðast inn á kaffihúsið þegar gíslarnir brutu upp hurðina og fóru út.
Hluti af hópnum var viss um að þau myndu ekki lifa til morguns ef þau gerðu ekki eitthvað. Bruce Herat, faðir hins 21 árs Joel Herat sem haldið var í gíslingu, segir að Monis hafi verið vakandi og í uppnámi um þetta leyti. Hann skipti óttaslegnum gíslunum í minni hópa.
„Á þessum tímapunkti komust Joel og fimm aðrir að þeirri niðurstöðu að þau myndu ekki lifa til morguns ef þau gerðu ekki eitthvað,“ sagði faðir Joel í samtali við fjölmiðla. Því ákvað fólkið að þau myndu sparka niður hurð á kaffihúsinu.
Hópurinn sást síðan flýja kaffihúsið rétt áður en vopnuð lögregla gerði áhlaup.