Þarf ekki að greiða skatta af vændistekjum

AFP

Vændiskona hafði betur gegn norska ríkinu en dómstóll í Ósló dæmdi fyrr í vikunni að það samrýmdist ekki lögum að skylda hana til að greiða skatta af tekjum sínum af vændi.

Í frétt VG kemur fram að lögreglan hafi gert húsleit á heimili konunnar sem er frá Nígeríu en hún bjó í íbúðinni ásamt tveimur öðrum vændiskonum.

Við húsleitina var lagt hald á 74 þúsund norskar krónur, mest allt erlendur gjaldeyrir. Lögreglan neitaði að skila peningunum aftur til vændiskonunnar þar sem lögreglan taldi að þar sem hún hafi unnið þá inn í Noregi þá ætti hún að greiða skatta af tekjunum í Noregi.

En dómarinn féllst ekki á þetta þar sem hann efaðist um að ríkið gæti innheimt skatta af vændi á sama tíma og vændissal og mansal væri saknæmt í Noregi. Eins væri ekki fullsannað að vændiskonan væri norskur skattþegn á þeim tíma sem hald var lagt á peningana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert