Kona gíslatökumannsins í Sydney, Man Haron Monis, hefur verið hneppt í varðhald á ný en hún hafði verið laus gegn tryggingu líkt og Monis í rúmt ár vegna morðs á fyrrverandi eiginkonu Monis.
Amirah Droudis, 35 ára, hafði verið laus gegn tryggingu vegna morðsins á á fyrrverandi eiginkonu Monis, Noleen Hayson Pal, en hún var stungin þrettán sinnum og síðan kveikt í henni lifandi í apríl 2013.
Mikil reiði greip um sig meðal almennings þegar upplýst var um að þau skötuhjú hefðu verið laus gegn tryggingu en þau Monis og Droudis eru grunuð um aðild að morðinu. Monis var einnig sakaður um fjölmörg kynferðisbrot.
Tveir gíslar létust og Monis einnig í umsátrinu um kaffihúsið þar sem Monis hélt á annan tug gísla í 16 klukkustundir í síðustu viku.
Að sögn dómarans hafa komið fram ný gögn í morðmálinu og fleiri vísbendingar um aðild Droudis að því. Því hafi tryggingin verið afturkölluð í dag og henni gert að sæta gæsluvarðhaldi.
Droudis og Monis voru árið 2013 fundin sek um að hafa sent hótunarbréf til fjölskyldna látinna hermenna fyrir sjö árum.