Björgunarsveitir vinna að því að bjarga fólki af ítalskri ferju sem eldur kom upp í út af strönd Grikklands í nótt. Fram kemur í frétt AFP að 466 manns hafi verið um borð í ferjunni Norman Atlantic sem hafi verið á leiðinni frá grísku borginni Patras til ítölsku borgarinnar Ancona. Erfiðar aðstæður eru á svæðinu til björgunarstarfa vegna slæms veðurs.
Tekist hefur að koma um 55 farþegum af ferjunni yfir í annað skip samkvæmt fréttinni en 150 eru komnir í björgunarbáta. Sjö skip eru komin á svæðið til þess að aðstoða við björgunarstörfin. Tvö grísk slökkviliðsskip eru á leiðinni og grískar og ítalskar flugvélar eru til taks. Talið er að eldurinn hafi komið upp á bíladekki ferjunnar en pláss er þar fyrir um 200 bifreiðar.