Geitin í Gävle slapp við íkveikju um jólin

Jólageitin í Gävle
Jólageitin í Gävle Af vef Wikipedia

Ótrúlegt en satt - jólageitin í Gävle stendur enn keik á sínum stað og er þetta í fyrsta skipti í mörg ár sem ekki er kveikt í blessaðri geitinni um jólin.

Jólageitur eru algengar í Svíþjóð en engin þeirra er jafn fræg og strágeitin í Gävle sem er 13 metrar á hæð. Geitin var sett upp 30. nóvember og allt frá þeim degi hafa blaðamenn sem og slökkviliðsmenn beðið átekta eftir því hvort reynt yrði að kveikja í henni. 

Í fyrra varð hún eldi að bráð 21. desember og árið á undan brann hún til kaldra kola 12. desember. En það er ekki víst að ástæðan sé sú að brennuvargar hafi misst áhuga á geitinni heldur nýjar aðferðir við að gæta hennar.

Má þar nefna samning sem gerður var við leigubílastöð í Gävle um að fá bílstjóra til þess að gefa geitinni auga þegar þeir áttu leið um. Eins var sett upp öryggismyndavél sem kveikt var á allan sólarhringinn. 

En þrátt fyrir þetta hafa verið gerðar nokkrar tilraunir til þess að kveikja í geitinni í desembermánuði. Meðal annars voru tveir Austurríkismenn handteknir um helgina eftir að þeir höfðu hellt einhverjum vökva yfir geitina og ætluðu að kveikja í.

Twitter-síða jólageitarinnar í Gävle

Við Íslendingar höfum átt okkar jólageit á Kauptúni við IKEA.
Við Íslendingar höfum átt okkar jólageit á Kauptúni við IKEA. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert