Misvísandi fréttir af bata Schumachers

Michael Schumacher
Michael Schumacher AFP

Þýski ökuþórinn Michael Schumacher er byrjaður að þekkja fjölskyldu sína en getur enn ekki tjáð sig, segir Philippe Streiff, vinur Schumachers og fyrrverandi starfsbróðir.

Philippe Streiff, sem er fyrrverandi kappakstursökumaður líkt og Schumacher, segir í viðtali við Le Parisien í dag að Schumacher geti ekki enn tjáð sig þó svo hann sé farinn að þekkja fjölskyldumeðlimi. Líkt og þekkt er lenti Schumacher í alvarlegu slysi á skíðum hinn 29. desember í fyrra. Hlaut hann alvarlega höfuðáverka í slysinu.

Streiff segist hafa þessar upplýsingar frá eiginkonu Schumachers, Corrinne, og heilaskurðlækninum Gérard Saillant, sem einnig annaðist Streiff þegar hann lenti í alvarlegu bílslysi árið 1989.

Í frétt Telegraph kemur fram að Streiff hafi sagt að Schumacher, sem verður 46 ára 3. janúar, hafi mjög takmarkaða hreyfigetu en sé í stöðugri þjálfun. Svo geti jafnvel farið að hann geti einhvern tíma gengið með hækjum.

En umboðsmaður Schumachers, Sabine Kehm, dregur mjög úr þessum ummælum Streiffs og segir að Schumacher eigi eftir langa og harða baráttu við að ná bata.

„Við þurfum á löngum tíma að halda. Þetta verður löng og erfið barátta,“ segir hún í viðtali við Telegraph. Hún gefur lítið fyrir vinskap Streiffs og Schumachers og segir að heimildir Streiffs séu ekki réttar og hann hagræði sannleikanum í viðtalinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert