Hreyfing gegn íslam vex í Þýskalandi

Slagorð gegn útlendingum voru krotuð á veggi húss í Vorra.
Slagorð gegn útlendingum voru krotuð á veggi húss í Vorra. AFP

Nýrri hreyfingu gegn íslömskum áhrifum hefur vaxið fiskur um hrygg í Þýskalandi upp á síðkastið. Undanfarnar tíu vikur hafa farið fram mótmæli á hverjum mánudegi á vegum hreyfingarinnar og hefur þátttakendum fjölgað jafnt og þétt. 22. desember mótmæltu 17 þúsund í Dresden í austurhluta Þýskalands og var það mesta þátttakan frá upphafi.

Hreyfingin nefnist „Evrópskir föðurlandsvinir gegn íslamsvæðingu Vesturlanda“ eða PEGIDA. Hún var stofnuð í október í Dresden, höfuðborg Saxlands. Hlutfall íbúa þar af erlendum uppruna er 2,2%. Þátttakan í mótmælum samtakanna hefur verið mun meiri í austurhluta landsins en vesturhlutanum, þar sem aðeins nokkur hundruð manns hafa tekið þátt í mótmælum.

Í stefnuskrá samtakanna, sem birt var fyrr í mánuðinum, segir að um sé að ræða grasrótarhreyfingu, sem hafði það markmið að vernda kristileg gildi. Hvatt er til umburðarlyndis gagnvart múslimum, sem hafi „aðlagast“, um leið og lýst er yfir andstöðu við „kvenhatur og ofbeldi í hugmyndafræði“ íslamista. Þar er spjótum beint gegn „lygnum fjölmiðlum“, „pólitískum valdastéttum“ og „fjölmenningarhyggju“.

Andstæðingar samtakanna segja að þau noti lítt dulbúinn málflutning nýnasista og gagnrýna þau fyrir að kynda undir andúð á útlendingum einmitt þegar hælisleitendur horfi vonaraugum til Þýskalands og landið sé komið í annað sæti á eftir Bandaríkjunum af þeim löndum, sem fólk helst vilja flytja til.

Hörð viðbrögð stjórnvalda

Aukin þátttaka í mótmælum Pegida hefur vakið sterk viðbrögð stjórnvalda. Joachim Gauck, forseti Þýskalands, sem var prestur í AusturÞýskalandi fyrir fall Berlínarmúrsins og studdi baráttuna fyrir lýðræði, notaði tækifærið í árlegu jólaávarpi sínu til að skora á fólk að sýna umhyggju og vera opið gagnvart hælisleitendum. „Að við bregðumst af samúð við neyðinni í kringum okkur, að flest okkar skuli ekki fylgja þeim, sem vilja loka Þýskalandi, það er sú reynsla frá þessu ári, sem er mér hvatning,“ sagði Gauck.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, varaði Þjóðverja við því fyrr í mánuðinum að falla fyrir lýðskrumi útlendingahaturs.

Wolfgang Schäuble fjármálaráðherra sakaði hina pólitísku stétt á miðvikudag um að hafa brugðist og látið fólk fá á tilfinninguna að hagsmunir þess væru vanræktir. Um leið þyrftu stjórnmálamenn að verja gildi lýðveldisins, sem reis úr rústum seinni heimsstyrjaldar, þar á meðal með því að sýna hælisleitendum rausnarskap.

„Hvers konar fólk værum við ef við, með okkar velmegun, vísuðum flóttamönnum burt,“ sagði hann í viðtali við dagblaðið Rheinische Post.

Pegida hefur einnig fengið hörð viðbrögð úr atvinnulífinu. Ulrich Grillo, forseti Samtaka iðnaðarins í Þýskalandi, sagði að samtökin græfu undan hagsmunum og gildum landsins.

„Við höfum lengi verið þjóð innflytjenda og verðum að vera það áfram,“ sagði Grillo við þýsku fréttaþjónustuna DPA. „Sem velmegandi land og einnig af kristilegum náungakærleika ætti land okkar að taka á móti fleiri flóttamönnum.“

Samtökin PEGIDA sögðu að ekki yrði efnt til mótmæla í dag til að létta álag á lögreglu yfir hátíðirnar.

Oftar ráðist á útlendinga

Þýska lögreglan greindi frá því um miðjan desember að markverð aukning hefði orðið á árásum á útlendinga í Þýskalandi og öfgar færu vaxandi. Þetta var tilkynnt nokkrum dögum eftir að kveikt var í bænahúsi gyðinga í bænum Vorra og hakakrossar nasista og slagorð gegn útlendingum voru krotuð á veggi.

Talið er að 22 þúsund öfgamenn séu í Þýskalandi og rúmur fjórðungur þeirra séu nýnasistar. Tæpur helmingur þeirra er talið að gæti gripið til ofbeldis.

PEGIDA, samtökum gegn íslömskum áhrifum, hefur vaxið fiskur um hrygg …
PEGIDA, samtökum gegn íslömskum áhrifum, hefur vaxið fiskur um hrygg í Þýskalandi upp á síðkastið. AFP
Undanfarnar tíu vikur hafa farið fram mótmæli á hverjum mánudegi …
Undanfarnar tíu vikur hafa farið fram mótmæli á hverjum mánudegi á vegum hreyfingarinnar PEGIDA. AFP
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka