Höfðu ekki leyfi fyrir fluginu

Yfirvöld í Indónesíu hétu í dag að rannsaka brot flugfélagsins AirAsia á flugreglugerðum. Í yfirlýsingu frá samgönguráðuneyti landsins segir að flugvélin sem fórst hafi verið að fljúga eftir áætlun sem ekki hafði fengist leyfi fyrir. Hefur flugfélaginu nú verið bannað að fljúga sömu flugleið, frá borginni Surabaya til Singapúr.

„Flugvélin braut í bága við flugleiðarleyfið og áætlunina, það er vandamálið,“ segir yfirmaður flugsamgangna hjá ráðuneytinu, Djoko Murjatmodjo, í samtali við fréttaveitu AFP. Sagði hann að flugfélaginu væri bannað að fljúga þessa leið þangað til rannsókninni lyki. Þá munu önnur flugfélög einnig þurfa að sæta rannsóknum vegna þessa.

Margir hlutar vélarinnar fundust seint í gærkvöldi undan ströndum eyjarinnar Borneó. Eykur það vonir um að flugritinn finnist bráðlega, sem er nauðsynlegur til að upplýsa um orsök slyssins. Leitarteymi hafa fundið lík 30 farþega flugvélarinnar, sem hrapaði snemma á sunnudaginn í óveðri.

Talsmaður samgönguráðuneytisins segir að flugfélaginu hafi ekki verið heimilt að fljúga þessa leið á sunnudögum og hafi enn fremur ekki beðið um að áætluninni yrði breytt. Enn er þó óljóst hvernig flugfélaginu tókst að fljúga án nauðsynlegrar heimildar.

Sterkir straumar hamla leitaraðgerðum

Leitarteymi hafa þurft að glíma við óljúft veður síðastliðna daga en þeim hefur þó tekist að afmarka leitarsvæðið við lítið svæði skammt suðvestan við Borneó. Erfitt hefur þó reynst að senda kafara niður á dýpi sökum sterkra hafstrauma á svæðinu.

Af 162 manns, farþegum og áhöfn, voru 155 indónesískir, þrír frá Suður-Kóreu, einn frá Singapúr, einn frá Malasíu, einn Breti og einn Frakki.

Lík farþega flutt með flugi til borgarinnar Surabaya.
Lík farþega flutt með flugi til borgarinnar Surabaya. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert