Neituðu að fara um borð í AirAsia

Airbus A320-vél AirAsia.
Airbus A320-vél AirAsia. Af Wikipedia

Hreyfill farþegaþotu AirAsia flugfélagsins bilaði skyndilega skömmu fyrir flugtak í borginni Surabaya í Indónesíu í gærkvöldi.

Þotan var komin út á flugbrautina þegar annar hreyfillinn missti aflið og varð óvirkur. Skelfing greip um sig meðal farþeganna sem heyrðu mikinn hávaða samhliða biluninni. Þotan náði að komast aftur að hliði flugvallarins og voru farþegar beðnir um að yfirgefa hana á meðan unnið yrði að viðgerðum.

Einn farþeganna, Yusuf Fitriadi, sagði í viðtali við indónesísku sjónvarpsstöðina Metro að þotan hafi verið reiðubúin til brottfarar þegar bilunin varð. „Skyndilega heyrðist hár hvellur, vélarhljóðið dó út og flugvélin færðist aftur á bak. Við vorum skelfingu lostin,“ sagði Fitriadi.

Að sögn Fitriadi var farþegunum sagt að þotan myndi fljúga á áfangastað um leið og viðgerðum væri lokið, en níutíu prósent farþeganna neituðu að fara aftur um borð þar sem þeir óttuðust að bilunin myndi aftur eiga sér stað, og þá í miðju flugi.

AirAsia endurgreiddi flugfargjöldin þeim farþegum sem neituðu að halda áfram með fluginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert