Leita enn svarta kassans

Svarta kassa farþegaþotu AirAsia er enn leitað en veður hefur skánað mjög á Jövuhafi. Fjögur lík hafa fundist í sjónum undanfarinn sólarhring en alls hafa 37 lík fundist.

Flug QZ8501 var á leið frá indónesísku borginni Surabaya á leið til Singapúr þann 28. desember sl. er flugvélin hvarf af ratsjám.

Samkvæmt frétt BBC er nú leitað neðansjávar með sérstökum sónarbúnaði. Þrátt fyrir að veðrið hafi skánað er hinsvegar ekki talið ráðlegt fyrir kafara að taka þátt í leitinni. Tugir skipa og flugvéla taka þátt í leitinni í dag.

Fjölskyldum farþega sem voru um borð í flugvélinni hefur verið boðið að fljúga yfir staðinn þar sem talið er að hún hafi brotlent. Flogið yrði með þá til Pangkalan Bun, sem er næsti bær við slysstaðinn og siglt þaðan með þær að slysstaðnum. Þar fengju þær að leggja blóm á vota gröf ættmenna sinna.

Mikið kapp er lagt á að bera kennsl á lík allra og eru 260 læknar að störfum við að bera kennsl á þá sem þegar hafa fundist. Notast þeir við fingraför, tannlæknaskýrslur og lífsýni úr beinum við vinnu sína.

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert