Átján þúsund manns tóku þátt í mótmælafundi í Dresden í Þýskalandi í gærkvöldi sem samtökin Pegida skipulögðu. Samtökin berjast gegn „íslamsvæðingu“ Evrópu. Andstæðingar samtakanna komu víða saman í landinu og reyndu að koma í veg fyrir mótmæli þeirra.
Undanfarna mánuði hafa liðsmann Pegida (þjóðrækinna Evrópubúa sem berjast gegn íslamsvæðingu Vesturlanda) komið saman í hverri viku í Þýskalandi og mótmælt. Þeir hafa hins vegar aldrei verið jafnmargir og í Dresden í gærkvöldi, samkvæmt frétt BBC.
Samtök sem berjast gegn skoðunum Pegida hafa einnig risið upp og haldið mótmælafundi gegn samtökunum og eins hafa þýskir stjórnmálamenn harðlega gagnrýnt Pegida. Þúsundir tóku þátt í fundum andstæðinga samtakanna í Berlín, Köln, Dresden og Stuttgart í gærkvöldi.
Í Berlín komu um fimm þúsund andstæðingar Pegida í veg fyrir að nokkur hundruð liðsmann samtakanna kæmust leiðar sinnar í göngu sem Pegida hafði skipulagt í borginni.
Alls tóku 22 þúsund andstæðingar Pegida þátt í mótmælum í Münster, Stuttgart og Hamborg, samkvæmt frétt DPS-fréttastofunnar. En í Dresden voru stuðningsmenn Pegida 18 þúsund talsins eins og áður sagði en andstæðingarnir einungis þrjú þúsund.
Í Köln slökktu yfirvöld á lýsingu dómkirkju borgarinnar til að sýna stuðningsmönnum Pegida að yfirvöld litu á þá sem öfgahóp. Prófastur dómkirkjunnar í Köln, Norbert Feldhof, segir að ekki sé um formleg mótmæli að ræða af hálfu kirkjuyfirvalda heldur vilji þau sýna stuðningsmönnum Pegida, sem margir eru íhaldssamir og kristinnar trúar, álit sitt og fá þá til þess að íhuga hvað þeir séu að gera. Einungis 250 tóku þátt í göngu Pegida í Köln en þúsundir tóku þátt í göngu gegn samtökunum þar í borg.
Samkvæmt DPA var stór hluti miðborgar Kölnar myrkvaður en ljós voru slökkt í öllum helstu byggingum þar og eins voru brýr yfir Rín myrkvaðar. Segir borgarstjórinn í Köln að með þessu vilji meirihluti borgarbúa sýna skoðun sína á öfgafullum hægrimönnum og útlendingahatri.
Í Dresden slökktu yfirmenn bílaframleiðandans Volkswagen öll ljós í verksmiðjum sínum til þess að sýna að fyrirtækið stæði fyrir opið, frjálst lýðræðissamfélag.
Nýleg skoðanakönnun, sem rúmlega þúsund manns tóku þátt í, sýnir að einn af hverjum átta Þjóðverjum myndi taka þátt í göngum gegn íslam ef Pegida skipulegði slíka göngu nálægt heimili þeirra.
Ekkert land innan Evrópusambandsins tekur við jafnmörgum flóttamönnum, bæði fólki sem er að flýja stríðsástand sem og þá sem eru að flýja efnahagsástand (refugees asylum), og Þýskaland. Mjög margir þeirra koma frá Sýrlandi þar sem borgarastyrjöld hefur geisað undanfarin ár.