Réttarhald í máli Dzhokhars Tsarnaevs, sem er ákærður fyrir sprengjutilræði í Boston-maraþonhlaupinu fyrir tæpum tveimur árum, hófst í gær með vali á fólki í kviðdóm.
Þrír létust í sprengjutilræðinu og 260 særðust. Tsarnaev, 21 árs múslími ættaður frá Tétsníu, á yfir höfði sér dauðarefsingu verði hann fundinn sekur um að hafa staðið á bak við tilræðið ásamt bróður sínum, Tamerlan, sem var skotinn til bana af lögreglu eftir tilræðið í apríl 2013.
Tsarnaev hefur neitað sök en ákæran yfir honum er í 30 liðum. Hann kom fyrir dómara, George O'Toole, sem fór lauslega yfir ákæruna yfir honum ásamt nokkur hundruð mögulegum kviðdómendum. Næstu daga verður alls um 1.200 manns gert að mæta í réttarsalinn þar sem val á kviðdómi í málinu stendur yfir.