Stél flugvélar AirAsia, QZ8501, sem brotlenti á Jövuhafi þann 28. desember er fundið. Í stélhluta flugvélarinnar er svarta kassann að finna en í honum eru flug- og hljóðriti vélarinnar sem geta veitt vísbendingar um hvers vegna flugvélin fórst.
Alls voru 162 um borð í farþegaþotunni en hún var að koma frá Surabaya í Indónesíu á leið til Singapúr þegar hún hvarf af ratsjám. Enginn hefur fundist á lífi en 40 lík hafa fundist. Talið er að lík flestra farþega sé enn um borð í flugvélinni. Talsvert brak hefur fundist úr vélinni, meðal annars sæti og hurðir sem hafa fundist á floti í sjónum.