Mannstönn fannst í franskri kartöflu sem seld var hjá skyndibitakeðjunni McDonald's í Japan. Atvikið átti sér stað á síðasta ári. Þetta staðfesti fyrirtækið á blaðamannafundi í dag.
Viðskiptavinur fann framandi hlut í frönskuskammti sem hann keypti hjá veitingastaðnum í Osaka í Japan. Yfirmenn fyrirtækisins fyrirskipuðu óháða rannsókn til að komast að því hvað væri um að ræða. Í ljós kom að tönn úr manni var í frönskunum og að hún hafði ekki verið elduð.
„Við höfum ekki komist að því hvernig hún komst í matinn,“ segir Hidehito Hishinuma, aðstoðarframkvæmdastjóri McDonald's í Japan.
Viðskiptavinurinn sem fann tönnina er kona sem var á veitingastaðnum ásamt ungu barni sínu. Hún sagði í sjónvarpsviðtali að hún hefði fengið þau svör frá starfsmanni að tönnin hefði verið „djúpsteikt“.
„Ég fékk fyrst afsökunarbeiðni þegar yfirmaðurinn kom á svæðið,“ sagði konan. „Ég á lítið barn og get ekki hugsað þá hugsun til enda ef það hefði borðað tönnina og jafnvel kafnað á henni.“
McDonald's segir að enginn starfsmaður veitingastaðarins í Osaka hafi misst tönn og þá er talið ólíklegt að tönnin hafi komist í matinn er hráefnið, sem er frá Bandaríkjunum, var flutt til Japans.
Atvikið er aðeins eitt margra sem upp hafa komið að undanförnu hjá McDonald's. Nýverið fann maður plastbút í kjúklinganagga í japönsku borginni Misawa. Þá fannst svipað efni í mat veitingastaðarins í Tókýó. Þriðja dæmið um plasthlut í mat McDonald´s er svo frá borginni Koriyama en þar fannst harður plasthlutur í matnum í desember. Yfirmenn McDonald´s staðfesta að barn hafi hlotið skurð í munn í því tilviki.
„Við biðjumst innilegrar afsökunar,“ sagði aðstoðarforstjóri Japansdeildar McDonald´s á blaðamannafundinum í dag.
Síðasta sumar komst upp að kínverskur kjötframleiðandi sem seldi McDonald´s kjöt blandaði hráefnið með útrunnu kjöti.