Frakkar sameinast í þögninni

AFP

Franska þjóðin er í sárum eftir hryðjuverkaárás í miðborg Parísar sem kostaði tólf manns lífið í gær. Í morgun var lögreglukona skotin til bana í úthverfi Parísar. Árásir hafa verið gerðar á moskur í Frakklandi og óttast margir múslímar um sinn hag í landi frelsisins. 

Forseti Frakklands, François Hollande, hefur lýst yfir þriggja daga þjóðarsorg og á hádegi (klukkan 11 að íslenskum tíma) í dag var einnar mínútu þögn í landinu fyrir utan klukknahljóm frá Notre Dame-kirkjunni í París. 

Helstu samtök múslíma í Frakklandi hvöttu múslíma í landinu til þess að taka þátt í þagnarathöfninni og biðja ímama, bænarpresta múslíma, til þess að fordæma hryðjuverk í kjölfar árásarinnar á ritstjórn Charlie Hebdo í París í gær. 

Frans páfi bað fyrir fórnarlömbum árásarinnar í morgun og segir að hryðjuverkin í París veki hugsanir um mannvonskuna. „Við biðjum fyrir öllum fórnarlömbum þessa ofbeldis. Við biðjum líka fyrir illvirkjunum og vonum að Guð geti breytt hjartalagi þeirra.“

Í gær fordæmdi páfi árásina harðlega líkt og flestir af helstu trúar- og þjóðarleiðtogum heims. 

Um helgina verður mínútu þögn á öllum leikjum í frönsku knattspyrnunni þar sem þeirra sem létust í árásinni verður minnst. Í tilkynningu frá franska knattspyrnusambandinu kemur fram að franska knattspyrnufjölskyldan standi sameinuð og votti ættingjum og vinum fórnarlambanna samúð.

Láta ekki fáviskuna fara með sigur af hólmi

Ádeiluritið Charlie Hebdo mun hins vegar ekki leggja upp laupana þrátt fyrir árásina, sem kostaði níu á ritstjórn blaðsins lífið, heldur kemur blaðið út á miðvikudaginn í næstu viku. 

Að sögn Patricks Pelloux, sem lifði árásina af, á útgáfan næsta miðvikudag að sýna að heimska og fáfræði fái ekki að fara með sigur af hólmi. 

Franska þjóðin sýndi svo sannarlega samhug í verki nú klukkan ellefu því út um allt land kom fólk saman og vottaði þeim látnu virðingu sína með þögn.

Á ellefta tímanum (á íslenskum tíma) var greint frá því að sést hafi til þeirra Chérif og Saïd Kouachi á hraðbrautinni í l'Aisne, sem er í Picardie-héraði,  í morgun. Bræðurnir eru eftirlýstir og grunaðir um aðild að hryðjuverkaárásinni í gær. Skilríki Saïds fundust meðal annars í flóttabifreiðinni í gær. Það var starfsmaður á bensínstöð skammt frá Villers-Cotterêt sem bar kennsl á bræðurna sem óku hvítum Renault Clio á leiðinni frá París. Mennirnir voru grímuklæddir og vopnaðir kalachnikov rifflum auk fleiri skotvopna.  
Sjö ættingjar og vinir bræðranna eru í haldi lögreglu í tengslum við rannsóknina en ekki er vitað hvort árásin á lögregluna í morgun tengist árásinni í gær.

Óljósar fregir af tengslum bræðranna við þann þriðja

Vitað er að árásarmennirnir voru þrír, það er tveir sem skutu og sá þriðji ók bifreiðinni. Seint í gærkvöldi gaf átján ára piltur, Hamyd Mourad, sig fram við lögreglu í bænum Charleville-Mézières, smábæ skammt frá landamærum Belgíu, þar sem hann hafði séð nafn sitt nefnt í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum í tengslum við leitina að hryðjuverkamönnunum þremur. Afar misvísandi fréttir eru um tengsl hans við bræðurna en einhverjir fjölmiðlar herma að hann sé tengdur öðrum þeirra fjölskylduböndum. Í einhverjum fjölmiðlum kemur fram að vinir Mourad segi að hann hafi verið í skólanum þegar árásin var gerð en aðrir fjölmiðlar segja að hann sé atvinnulaus og heimilislaus. Hvorki lögregla né saksóknari hafa tjáð sig um tengsl hans við bræðurna né heldur hver þjóðfélagsstaða hans er.

Í gærkvöldi leitaði sérsveit lögreglunnar í íbúð í borginni Reims sem tengist þeim. Hvorugur þeirra var í íbúðinni á þeim tíma.

Sprengja skók kebab stað skammt frá mosku í Villefranche-sur-Saone í …
Sprengja skók kebab stað skammt frá mosku í Villefranche-sur-Saone í morgun AFP
Lögreglukona var skotin til bana í París morgun.
Lögreglukona var skotin til bana í París morgun. AFP
Fjölmargir söfnuðust saman á Mannréttindatorginu í Saint-Denis de la Reunion
Fjölmargir söfnuðust saman á Mannréttindatorginu í Saint-Denis de la Reunion AFP
AFP
Núverandi og fyrrverandi forsetar Frakklands sameinuðust í þögn í hádeginu.
Núverandi og fyrrverandi forsetar Frakklands sameinuðust í þögn í hádeginu. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert