Svo virðist sem bræðurnir Chérif og Saïd Kouachi og Amedy Coulibaly hafi allir verið skotnir af lögreglu er áhlaup voru gerð á prentsmiðju í Dammartin-en-Goële og matvöruverslun í París og þeir séu nú allir látnir. Áhlaupin voru gerð á fimmta tímanum í dag.
Um klukkan fjögur heyrðust sprengingar og skothríð frá prentsmiðjunni og í kjölfarið steig reykur upp úr þaki hennar. Skömmu síðar var staðfest að sérsveitarmenn hefðu ráðist til atlögu. Bræðurnir eru sagðir hafa komið á móti sérsveitarmönnum sem réðust til atlögu á prentsmiðjuna og skotið á þá.
Coulibaly tók að minnsta kosti sex manns gíslingu í matvörubúð í París eftir hádegi í dag. Hann hótaði að drepa alla ef sérsvæ réðist inn í prentsmiðjuna. Eftir að nafn Coulibaly var gefið upp varð þá þegar ljóst að mikil tengsl eru á milli Coulibaly og Kouachi bræðranna og ná mörg ár aftur í tímann.
Eins og komið hefur fram er talið ljóst að Kouachi-bræðurnir stóðu að hryðjuverkaárás á skopmyndaritið Charlie Hebdo í París á miðvikudag en tólf létu lífið í árásinni og fleiri liggja særðir á sjúkrahúsi. Í gærmorgun myrti Coulibaly svo lögreglukonu í París.
Uppfært kl. 16.59
Lögregla fer nú vel og vandlega yfir byggingarnar tvær til að útiloka að bræðurnir og Coulibaly hafi skilið eftir sprengjur.
Sky-sjónvarpsstöðin greinir frá því að fjórir gíslar hafi fallið. Ekki er vitað hvort þeir féllu í dag eða við áhlaupin. Þá segir einnig að lögregla hafi hakkað sig inn í öryggismyndavélar matvöruverslunarinnar og því getað fylgst með stöðunni.
Uppfært kl. 17.09
Skömmu áður en ráðist var til atlögu var allt fjarskiptasamband truflað á báðum stöðum , hugsanlega til að koma í veg fyrir að mennirnir gætu verið í símasambandi sín á milli.
Francois Hollande, forseti Frakklands, mun ávarpa þjóðina klukkan 20 að frönskum tíma, kl. 19 að íslenskum tíma.
Svo virðist sem Kouachi-bræðurnir hafi ekki vitað af manni sem faldi sig í prentsmiðjunni á meðan þeir dvöldu þar. Fréttavefurinn Le Figaro greinir frá þessu. Maðurinn er grafískur hönnuður. Hann sendi föður sínum sms þar sem kom fram að hann væri í felum á fyrstu hæð byggingarinnar. Sagðist hann telja að bræðurnir hefðu myrt alla í byggingunni og bað hann föður sinn um að biðja lögreglu um að láta til skarar skríða.
Fréttin verður uppfærð