Mörg þúsund manns streyma nú út á götur Parísarborgar úr öllum áttum að Lýðveldistorginu. Þar mun fara fram samstöðuganga vegna hryðjuverkanna í borginni í vikunni. Sautján manns létu lífið í árásunum.
Neðar í fréttinni má sjá beina útsendingu frá göngunni og fundinum.
Fólkið hrópar meðal annars, „Charlie, Charlie“ í minningu blaðamannanna og skopmyndateiknaranna sem voru myrtir á skrifstofum Charlie Hebdo.
Að sögn blaðamanns BBC sem er á staðnum er slagorðið Je suis Charlie, eða Ég er Charlie, áberandi meðal fólksins. Sumir klæðast bolum með slagorðinu, aðrir halda á heimagerðum skiltum.
Mikill viðbúnaður er vegna fundarins og munu tvö þúsund lögreglumenn og á annað þúsund hermanna sjá um öryggisgæslu.
Fjölmargir þjóðarleiðtogar hafa boðað komu sína á fundinn en þeirra á meðal eru Angela Merkel, kanslari Þýskalands, David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, og Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels.
Alls verða 34 leiðtogar Evrópuríkja viðstaddir fundinn.
Fólk safnast ekki aðeins saman í París í dag heldur í bæjum og borgum víða um landið.
Tæplega 10 þúsund manns gengu götur smábæjarins Dammartin-en-Goele, þar sem bræðurnir tveir tóku starfsfólk prentsmiðju í gíslingu og létu síðar lífið þegar lögregla gerði áhlaup á húsnæðið.
Í smábænum Saint-Etienne í suðausturhluta Frakklands komu 60 þúsund manns saman. Það er um einn þriðji þeirra sem búa í bænum.
Hér má sjá beina útsendingu frá samstöðugöngunni:
Uppfært kl. 15.56:
Um 60 þjóðarleiðtogar eru meðal þátttakenda í samstöðugöngu sem nú stendur yfir í París. Við hlið Francois Hollande Frakklandsforseta ganga meðal annarra Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, og Mahmud Abbas, forseti Palestínu.
Formlegheit voru látin víkja þegar forsetar, forsætisráðherrar og önnur fyrirmenni tóku sér sæti í hópferðabifreið sem flutti þau í gönguna. Að því er fram kemur á Guardian fara eftirlifendur árásanna og fjölskyldur þeirra sem voru myrtir fyrir göngunni, með hvít höfuðbönd og margir með tárvot augu, en á eftir fylgja þjóðarleitogarnir, sem margir hverjir héldust í arma við upphaf göngunnar.
Þá hafa leiðtogar margra trúarbragða fylkt liði fyrir aftan fána sem áletrunina „Við erum Charlie.“
Talið er að milljón manns taki þátt í göngunni, sem hófst skammt frá ritstjórnarskrifstofum Charlie Hebdo, þar sem 12 létust í árásinni á fimmtudag.
Um 2.200 lögreglu- og sérsveitarmenn fylgjast með fólksfjöldanum, þeirra á meðal leyniskyttur á nálægum húsþökum.
Víða í göngunni hefur brotist út lófaklapp og þá hafa þátttakendur sungið franska þjóðsönginn og hrópað „Charlie, Charlie!“
Meðal annarra þjóðarleiðtoga í göngunni eru Angela Merkel, kanslari Þýskalands, David Cameron, forsætirsráðherra Bretlands, og Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu. Eric Holder, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, er staðgengill Barack Obama forseta í göngunni. Þá eru konungurinn og drottninginn af Jórdan meðal þátttakenda.